1
Þetta var kaldasti vetur í 45 ár. Þorp í Englandi einangruðust af snjóalögum, og Thames lagði bakka á milli. Dag einn í janúar kom lestin frá Glasgow til Euston-stöðvar í London 24 tímum á eftir áætlun. Akstur bifreiða var hættulegur af völdum snjóa og myrkvunar, slys á þjóðvegum tvöfölduðust, og fólk sagði gamansögur um, að það væri hættulegra að aka Austin 7 eftir Piccadilly að kvöldlagi en skriðdreka gegnum Siegfried-línuna.
En svo kom vorið og það var yndislegt. Loftvarnabelgir svifu tígulega á heiðum, bláum himni, og hermenn í orlofi dufluðu við stúlkur, sem gengu í ermalausum kjólum eftir götum Lundúnaborgar.
Hún líktist ekkert sérstaklega höfuðborg þjóðar, sem átti í styrjöld. Þess sáust þó auðvitað merki, og Henry Faber, sem hjólaði frá Waterloostöð til Highgate, veitti þeim athygli: Sandpokahlöðum úti fyrir mikilvægum, opinberum byggingum, loftvarnaskýlum í görðum í úthverfunum, áróðursspjöldum um brottflutning fólks og varúðarráðstafanir í loftárásum. Faber fylgdist með slíkum hlutum — hann var mun athugulli en venjulegir skrifstofumenn járnbrautanna. Hann sá fjölda barna í skemmtigörðunum og dró af því þá ályktun, að brottflutningurinn hefði mistekist. Hann athugaði fjölda bíla, sem var í notkun þrátt fyrir bensínskömmtun, og las um nýjar gerðir, sem bílaframleiðendur skýrðu frá. Hann skildi merkingu þess, þegar menn, sem unnu á næturvakt, streymdu út úr verksmiðjum, sem höfðu varla haft næg verkefni fyrir dagvaktina eina aðeins fáeinum mánuðum áður.
En hann fylgdist einkum með flutningi hersveita með járnbrautum Bretlands, og öll skjöl í því sambandi fóru um skrifstofuna, þar sem hann starfaði. Það var hægt að fræðast um margt af skjölum. Þá um daginn hafði hann til dæmis stimplað fjölda eyðublaða, sem vöktu þá skoðun hans, að það væri verið að safna nýjum her, sem senda ætti úr landi. Hann var nokkurn veginn viss um, að í honum yrðu um hundrað þúsund manns, og að þessi her ætti að fara til Finnlands.
Það voru ýmis ummerki, já; en það var eitthvað skoplegt við þetta allt saman. Útvarpsþættir gerðu gys að skriffinnskunni í sambandi við alls konar styrjaldarreglur, fólk söng saman í loftvarnabyrgjunum, og glæsilega búnar konur höfðu gasgrímur sínar í klæðskerahönnuðum töskum. Menn töluðu um þetta leiðindastríð, sem var jafnframt talið heldur ómerkilegt eins og kvikmynd. Öll loftárásarmerkin höfðu undantekningarlaust verið gabb.
Faber var á annarri skoðun, en hann var líka maður af öðru tagi.
Hann beygði inn á Archway Road og hallaði sér dálítið fram, þegar leiðin varð á fótinn, og langir fætur hans stigu hjólið eins og óþreytandi gufustrokkar eimreiðar. Hann var ágætlega á sig kominn eftir aldri, sem var 39 ár, þótt hann lygi um það; hann laug um flesta hluti, enda var það öryggisráðstöfun.
Hann fór að svitna, þegar hann hjólaði upp brekkuna til Highgate. Húsið, sem hann bjó í, var eitt hið hæsta í London, og þess vegna hafði hann einmitt kosið að búa þar. Þetta var tígulsteinshús frá Viktoríu-tímanum, endir sex húsa sambyggingar. Þau voru há, mjó og dimm, eins og hugsunarháttur þeirra, sem þau höfðu verið byggð fyrir. Hvert hús var þrílyft, en auk þess var þar kjallari, þar sem hjúunum var ætlað að ganga inn — á 19. öld hafði miðstéttin enska krafist þess, að hjúin hefðu sérstakan inngang, jafnvel þótt engin hjú væru. Faber var kaldranalegur í afstöðu sinni til Englendinga.
Húsið nr. 6 hafði verið í eigu Harolds Gardens, sem rekið hafði lítið fyrirtæki, sem seldi kaffi og te en varð gjaldþrota á kreppuárunum. Þar eð Garden hafði lifað samkvæmt þeirri meginreglu, að gjaldþrot væri dauðasynd, átti hann ekki annars úrkosti en að deyja. Húsið var það eina, sem hann lét konu sinni eftir, en hún neyddist þá til að taka leigjendur. Hún naut þess að vera húsráðandi, enda þótt siðareglur þeirra, sem hún umgekkst, krefðust þess að hún létist skammast sín fyrir það. Faber hafði herbergi á efstu hæð. Hann bjó þar frá mánudegi til föstudags og sagði frú Garden, að hann væri um helgar hjá móður sinni í Erith. Sannleikurinn var sá, að hann leigði líka hjá annarri konu í Blackheath, og kallaði hún hann hr. Baker og hélt, að hann væri sölumaður fyrir pappírsvöruframleiðanda og eyddi allri vikunni í söluferðir.
Hann dró hjólið upp eftir garðstígnum, meðan háir gluggarnir litu á hann með vanþóknum. Hann lét hjólið í skýlið og festi það við sláttuvélina með hengilás — það var brot á lögum að skilja farartæki eftir ólæst. Útsæðiskartöflurnar í kössunum allt í kring í skýlinu voru farnar að spíra. Frú Garden hafði hafið grænmetisrækt í blómareitunum vegna styrjaldarinnar.
Faber gekk inn í húsið, hengdi hatt sinn á snaga í anddyrinu, þvoði sér um hendur og fór inn til að fá sér tesopa.
Þrír aðrir leigjendur voru að matast: Bólugrafinn piltur frá Yorkshire, sem var að reyna að komast í herinn; sælgætissölumaður með skollitt hár og byrjandi skalla; og uppgjafasjóliðsforingi, sem Faber var sannfærður um, að væri haldinn einhverri ónáttúru. Faber kinkaði kolli til viðstaddra og settist.
Sölumaðurinn var einmitt að segja gamansögu: „Svo að sveitarforinginn segir, „Þú kemur snemma aftur!“ Og flugstjórinn leit við og svaraði: „Já, ég fleygði áróðursmiðunum í búntum. Var það ekki rétt?“ Og sveitarforinginn sagði: „Guð minn góður! Þú hefðir getað meitt einhvern!““
Sjóliðsforinginn hló stuttaralega og Faber brosti við. Frú Garden kom inn með teketilinn. „Gott kvöld, hr. Faber. Við byrjuðum án yðar — ég vona, að yður sé sama.“
Faber smurði þunnu smjörlíkislagi á heilhveitibrauðsneið og þráði sem snöggvast feita pylsu. „Útsæðiskartöflurnar yðar eru tilbúnar að fara í jörðina,“ sagði hann svo við frúna.
Faber flýtti sér að drekka teið. Hinir stældu um það, hvort rétt væri að reka Chamberlain og láta Churchill taka við. Frú Garden tók þátt í samræðunum en leit jafnan um leið á Faber, til að sjá viðbrögð hans. Hún var subbuleg kona, aðeins of feit. Á svipuðu reki og Faber, en klæddist samt eins og hún væri aðeins þrítug, og hann grunaði, að hún hefði hug á að ná sér í annan mann. Hann tók ekki þátt í samræðunum.
Frú Garden kveikti á útvarpsviðtækinu. Það suðaði í því stutta hríð, en síðan tilkynnti þulur: „Þetta er innanlandsdagskrá BBC. Þátturinn „It’s That Man again“ er næstur á...