: Victoria Holt
: Arfur fortíðar
: SAGA Egmont
: 9788728045749
: Gotneskar ástarsögur
: 1
: CHF 5.40
:
: Erzählende Literatur
: Icelandic
: 356
: Wasserzeichen
: PC/MAC/eReader/Tablet
: ePUB
Hin unga Karólína á framtíðina fyrir sér þegar hún, á fögnuði til heiðurs drottningarinnar, opinberar fyrir slysni hræðilegt fjölskylduleyndarmál og brýtur þar með reglur virðulegrar fjölskyldu sinnar. Þrátt fyrir að hafa alltaf verið til fyrirmyndar fram að þessu, er hún samstundis sett í útlegð til frænda síns í Cornwall, svarta sauðsins í fjölskyldunni. Lífi hennar er þar með snúið á hvolf, þangað til hún hittir hinn heillandi Paul Landower. En erfiðleikar halda þó áfram að sækja á Karólínu þegar hún kemst að því að nýja ástin heldur líka myrku leyndarmáli frá henni...

Victoria Holt er eitt höfundarnafna Eleanor Alice Burford Hibbert. Hún fæddist í Bretlandi árið 1906 og lést 1993 og ritaði um 200 sögulegar skáldsögur um ævina undir hinum og þessum höfundarnöfnum, allt eftir umfjöllunarefni sagnanna. Meðal annarra höfundarnafna hennar eru Jean Plaidy og Philippa Carr. Verk hennar hafa unnið til verðlauna, verið þýdd á fjölda tungumála og hafa selst í yfir 50 milljón eintökum um allan heim.

HÁLFA ÖLD Á HÁSÆTI


Það var um það leyti, sem drottningin hafði setið á hásæti í hálfa öld, að þeir atburðir urðu, sem gerbreyttu lífi mínu. Ég var þá aðeins fjórtán ára og var því of ung til þess að gera mér grein fyrir mikilvægi þeirra, þótt þeir væru að gerast allt umhverfis mig og ég væri þátttakandi í þeim. Það var eins og ég virti fyrir mér heiminn í gegnum hrímaða rúðu; ég sá það, sem fram fór, en mikilvægi þess var mér ekki ljóst.

Sá, sem hefði aðeins þekkt okkur af afspurn, hefði haldið, að við værum mjög hamingjusöm fjölskylda. Ekki er þó allt sem sýnist. Við vorum talin vel efnuð. Heimili okkar í London var við eitt af torgunum í næsta nágrenni Hydealmenningsgarðsins. Wilkinson, brytinn, og frú Winch, ráðskonan, stjórnuðu húsverkunum, en á milli þeirra var mikil samkeppni, því bæði vildu þau ráða. Snemma á morgnana, áður en nokkur úr fjölskyldunni var kominn á fætur, var lægst setta þjónustufólkið á þönum um húsið, til þess að hreinsa öskuna úr örnunum, fægja og þurrka af og sækja heitt vatn, svo að við fótaferð okkar hefði mátt ætla, að einhver ósýnileg töfrahönd hefði verið að verki. Allt þjónustufólkið vissi, að það var föður mínum mjög á móti skapi, ef það varð á vegi hans, og það vissi, að það gat kostað brottrekstur. Allir í húsinu óttuðust að verða honum til skapraunar, og móðir mín var þar engin undantekning.

Pabbi hét Róbert Ellis Tressidor. Hann var af Tressidorættinni, sem átti Tressidoróðalið í Lancarron, í Cornwall. Fjölskyldan hafði átt stórar landareignir síðan á sextándu öld, en þeim hafði fjölgað mjög við endurreisn konungdæmisins. Flestar kunnu ættirnar á Vesturlandi höfðu verið tryggir stuðningsmenn konungsins á þeim tíma, þótt engin þeirra hafi verið konunghollari en Tressidorættin.

Því miður hafði ættaróðalið ekki orðið eign föður míns, því það hafði runnið til Mary frænku (þegar ég heyrði fyrst um það, voru þessi orð notuð, og ég varð að fletta þeim upp, til þess að sjá, hvað þau merktu; ég lagði oft við eyrun, af því ég var svo forvitin, enda varð ég margs vísari með því að hafa augu og eyru opin). Faðir minn og systir hans, Imogen, sögðu alltaf nafn hennar með fyrirlitningu, en þó með nokkurri öfund, að mér fannst.

Ég hafði komist að því, að afi hafði átt eldri bróður, sem hafði verið faðir Mary. Hún var einkabarn hans, en þar eð hann var eldri bróðirinn hafði Tressidoróðalið og allar landareignirnar, sem því fylgdu, orðið hennar eign, en ekki föður míns, sem sýndist þó hafa átt fullan rétt til þess, því þótt hann væri yngri bróðirinn, þá var hann þó af sterkara kyninu, sem engin kona átti að etja kappi við.

Imogen frænka, öðru nafni lafði Carey, var eins óhagganleg á sinn hátt og faðir minn var á sinn. Ég heyrði þau eitt sinn ræða með fyrirlitningu um hegðan Mary frænku, sem hefði tekið ættaróðalið í sínar hendur og látið eins og hún gerði sér ekki grein fyrir því, að hún væri að ræna því úr höndum löglegs erfingja. „Þessi gráðuga norn“ voru orðin, sem Imogen frænka, hafði þá haft um hana, og þá sá ég Mary frænku, fyrir mér með fuglsvængi og langar klær svífa í kringum föður minn og Imogen frænku, eins og nornirnar yfir vesalings blinda konunginum Fíneusi.

Það var erfitt að ímynda sér, að nokkur gæti borið sigurorð af pabba, en þar eð Mary frænka hafði gert það, hlaut hún að vera mjög hörð af sér. Ég bar því nokkra virðingu fyrir henni, en þegar ég sagði Ólivíu, systur minni, frá því, þá sakaði hún mig um ótrygglyndi við föður okkar. Þótt pabbi hefði þannig misst af stórum hluta arfs síns, lék enginn vafi á að hann var húsbóndi á sínu eigin heimili. Þar laut allt vilja hans, allt varð að vera eins og hann vildi. Þjónustufólkið var margt, enda krafðist þátttaka hans í opinberu lífi og heimboðin þess. Hann var formaður ýmissa nefnda og samtaka, sem störfuðu mörg að góðgerðamálum. Þannig lét hann atvinnumál fátækra og endurhæfingu fallinna kvenna til sín taka. Hann beitti sér því fyrir framgangi góðra mála, og nafn hans birtist oft í blöðunum; reyndar var hann stundum nefndur annar Shaftesbury lávarður, og oft var haft á orði, að í rauninni ætti að vera búið að aðla hann fyrir löngu.

Það kom því ekki á óvart, að hann skyldi vera mikill vinur margra kunnra manna, þeirra á meðal Shaftesburys lávarðar, sem var forsætisráðherra. Hann átti sæti á þingi, en þáði ekki ráðherradóm, þótt hann hefði lítið þurft að hafa fyrir slíku embætti, því hann hafði svo margra hagsmuna að gæta utan Westminster. Honum fannst hann betur geta þjónað landi sínu með því að sinna þeim en með því að helga sig stjórnmálum eingöngu.

Hann var bankaeigandi og sat í stjórn allmargra fyrirtækja. Á hverjum morgni rann vagn upp að húsinu okkar. Faðir minn gerði þá kröfu, að hann væri ætíð gljáfægður og klæðnaður ökumanns eins og bæri. Sömuleiðis varð sveinninn, sem sat aftan á vagninum og hafði þeirri skyldu að gegna að stökkva niður í ferðalok og opna dyrnar, að vera óaðfinnanlega klæddur.

Faðir minn var gæddur tveimur mikilvægustu eiginleikunum, sem prýtt gátu herramann á okkar tímum: hann var ríkur og hann var með óflekkað mannorð.

Ungfrú Bell, kennslukonan okkar, var mjög stolt af honum.

„Þú verður að muna, að hann er uppspretta alls þess góða í lífi þínu,“ sagði hún við okkur.

Kennslukonan var oft gripin övæntingu vegna hegðunar minnar. Kæra ungfrú Bell tók svo alvarlega hlutverkið, sem Guð og herra Tressidor höfðu falið henni. Hún var afar fastheldin og hugsaði mikið um alla góðu eiginleikana, sem húsbóndi hennar var gæddur, enda efaðist hún aldrei um þá mynd, sem hann gaf af sjálfum sér. Og hún gleymdi því aldrei, hversu vel sem hún vann verk sín, að hún var af veikara kyninu.

Ég hlýt að hafa verið erfitt barn, því ég trúði aldrei neinu, sem mér var sagt, og var ekki nógu gætin til að hafa ekki orð á því.

„Hvers vegna,“ sagði Ólivía, systir mín, „þarftu alltaf að snúa öllu við? Hvers vegna geturðu ekki tekið mark á því, sem þér er sagt?“

Ég svaraði því til, að ástæðan væri sennilega sú, að fólk segði ekki alltaf sannleikann, og segði þá það, sem það héldi að væri rétt.

„Það er betra að trúa...