KVAÐNING TIL KASTALANS
Það var á heitum júnídegi að ég uppgötvaði leyndarmál föður míns, sem átti eftir að breyta öllu lífi mínu, eins og hans. Ég mun aldrei gleyma skelfingunni, sem greip mig. Sólskinið var ljómandi, næstum miskunnarlaust. Heitasti júní í mörg ár. Ég sat og horfði á hann. Hann virtist hafa elzt um tíu ár á fáum mínútum, og þegar hann beindi augum sínum að mér, sá ég örvæntingu í þeim, er hann gafst skyndilega upp á að sýnast. Hann vissi, að hann gæti ekki lengur dulið fyrir mér skelfingarástand sitt.
Það var óhjákvæmilegt, að það yrði ég, sem uppgötvaði það. Ég hafði alltaf verið honum nánari en nokkur annar — jafnvel móðir mín, meðan hún lifði. Ég skildi öll skapbrigði hans. Skildi fögnuð skapandi listamanns, baráttuna, vonbrigðin. Maðurinn, sem ég þekkti í málarastofunni var frábrugðinn blíða og óbrotna manninum sem hann varð utan hennar. Auðvitað dvaldi hann lengst af í vinnustofunni. Það var líf hans. Til þess hafði hann lært. Frá því að hann var fimm ára, hafði hann komið hér með föður sínum til að sjá hann vinna. Sú sögn gekk, að þegar hann var fjögurra ára, hefði hann horfið einn daginn og fóstra hans hefði fundið hann við að mála á skinn með einum af fínustu safalaburstum föður síns.
Collison var þekkt nafn í listaheiminum. Það var alltaf tengt örmyndamálun, og ekkert safn í Evrópu, sem nokkurs var virði, gat verið án þess að eiga að minnsta kosti eitt Collison örmálverk.
Málun örmynda er hefð í ætt okkar. Faðir minn sagði, að það væru hæfileikar, sem bærust milli ættliða og til þess að verða góður málari, yrði að byrja strax í vöggu. Þannig hafði það verið í Collison-ættinni. Forfaðir okkar hafði verið nemandi Isaacs Olivers, sem aftur hafði verið nemandi ekki ómerkari manns en hins fræga örmyndamálara á Elísabetartímanum, Nicolasar Hilliards.
Fram að núverandi kynslóð hafði ætíð sonur tekið við af föður, bæði nafninu og listinni. En það hafði brugðizt hjá föður mínum — hann hafði aðeins getað eignazt dóttur — mig.
Það hlýtur að hafa verið honum mikil vonbrigði, enda þótt hann nefndi það aldrei. Eins og ég sagði, var hann mildur maður utan vinnustofunnar og bar virðingu fyrir tilfinningum annarra. Hann var fremur seinmæltur, þar eð hann gætti vel orða sinna og hver áhrif þau hefðu á aðra. Það var annað, þegar hann var að vinna. Þá sökkti hann sér algerlega í verkið, gleymdi matartímum, fundum og alls konar skuldbindingum. Stundum fannst mér að hann ynni af ofsafengnum ákafa af því að hann yrði sá síðasti af Collison-unum. Nú var honum farið að skiljast, að svo þyrfti ekki að vera, því að ég hafði einnig uppgötvað töfra burstans, pergaments og fílabeins. Ég var að læra að halda áfram hefð ættarinnar. Ég ætlaði að sýna föður mínum, að ekki skyldi fyrirlíta dætur, þær gætu gert jafn vel og synir. Það var ein af ástæðunum fyrir því, að ég sökkti mér í fögnuð málverksins. Önnur ástæða — langtum mikilvægari — var sú, að þrátt fyrir kynferði mitt hafði ég erft löngunina til að skapa þessi flóknu myndverk. Ég bjó yfir löngun — ég vogaði að segja hæfileikum — til að keppa við forfeður mína.
Faðir minn var þá nálægt fimmtugu. Hann virtist yngri, vegna skærra, blárra augnanna og úfins hársins. Hann var hár og mjög grannur, svo að hann virtist hálf ólánlegur. Ég held, að fólk hafi furðað á því, að þessi örsmáu listaverk skyldu koma frá þessum hálf klaufalega manni.
Hann hét Kendal. Það nafn hafði gengið í gegnum marga ættliði. Það var hefð, að nöfn karlmannanna byrjuðu á K og stafirnir K.C. — svo smáir í einu horni að þeir sáust varla — voru aðalsmerki þessara frægu örmynda. Það hafði valdið talsverðri óvissu um, eftir hvern þeirra hver mynd væri.
Faðir minn hafði ekki kvænzt fyrr en um þrítugt. Það var ekki fyrr en hann kom til jarlsins af Langston í Gloucestershire að löngun hans til að giftast varð annað og meira en skyldan við ættina. Jarlinn hafði ráðið hann til að mála smámyndir af konu sinni og tveim dætrum, lafði Jane og lafði Katherine — sem kölluð var lafði Kitty. Hann sagði ætíð, að örmyndin af lafði Kitty væri sú bezta, sem hann hefir gert. „Í henni var ást,“ sagði hann. Hann var tilfinningamaður.
Árangurinn varð rómantískur, en auðvitað hafði jarlinn ætlað dóttur sinni annað. Hann hafði ekkert vit á list — vildi aðeins eignast Collison-örmynd, af því að það var verðmæti og frægð.
Faðir minn kallaði hann filistea. Jarlinn hafði von um að eignast hertoga að tengdasyni.
En lafði Kitty reyndist vilja fara sínu fram og var jafn ástfangin af listamanninum og hann af henni. Pau hlupust á brott og Langston kastali var henni þar með lokaður. En hún lét slíkt ekki á sig fá.
Ári eftir giftinguna kom ég í heiminn og olli miklum vandræðum og kostaði lafði Kitty heilsuna. Hún varð hálfgerður öryrki og ófær um að eignast fleiri börn, og þá blasti við sú ónotalega staðreynd, að eina afkvæmið var stúlka, og það virtust endalok Collison-ættarinnar.
Ekki þannig að ég fyndi nokkurn tíma til þess, að ég hefði valdið vonbrigðum. Ég uppgötvaði það sjálf og kynntist hefðum ættarinnar og varð nákunnug vinnustofunni með stóru gluggunum, sem miðaðir voru við að ná sterkri og skærri norðurbirtunni.
Ég komst að miklu af tali þjónustufólksins, því að ég hlustaði af áhuga og skildi fljótt, að þannig fengi ég miklu meira að vita, en þó að ég spyrði foreldra mína.
Þegar ég uppgötvaði leyndarmálið, var liðið ár frá dauða móður minnar. Dauði hennar var okkur öllum mikið áfall. Hún hafði verið mjög fögur og bæði ég og faðir minn höfðum verið ánægð að sitja og horfa á hana … Hún lá á sóffa sínum og tók á móti gestum og stundum, þegar hún var hressari, lék hún á píanó eða raðaði blómum.
Móðir mín gerði enga tilraun til að stjórna heimilinu. Það gerði Evie, en án hennar hefði líf okkar orðið mun óþægilegra. Hún hafði verið aðeins sautján ára, þegar hún kom til okkar. Þá var ég ársgömul. Evie var fjarskyld móður minni, en þeim hafði þótt vænt hvorri um aðra, og þegar móðir mín varð öryrki, þótti henni sem Evie væri sú rétta til að koma og taka við stjórninni. Svo Evie kom og iðraðist þess aldrei og þá ekki við …
Ég hét líka Katherine, en kölluð Kata til aðgreiningar frá...