: Victoria Holt
: Bölvun konunganna
: SAGA Egmont
: 9788728037157
: Gotneskar ástarsögur
: 1
: CHF 6.20
:
: Erzählende Literatur
: Icelandic
: 212
: Wasserzeichen
: PC/MAC/eReader/Tablet
: ePUB
Dauðinn sækir þá heim sem trufla hina eilífu hvíld konunganna... Fyrir Judith Osmond virðast allir draumar hennar hafa ræst. Þrátt fyrir að hafa fæðst í fátækt erfir hún ríkan ættingja og getur því gert allt sem hún vill. Hún giftist Tybalt, ungum fornleifafræðingi sem hún hefur verið ástfangin af frá unga aldri, og þau ferðast til Egyptalands, nokkuð sem Judith hefur alltaf dreymt um að gera. En það er í Egyptalandi sem bölvun konunganna virðist ætla að rætast og það reynir á kænsku Judith að leysa ráðgátuna.

Victoria Holt er eitt höfundarnafna Eleanor Alice Burford Hibbert. Hún fæddist í Bretlandi árið 1906 og lést 1993 og ritaði um 200 sögulegar skáldsögur um ævina undir hinum og þessum höfundarnöfnum, allt eftir umfjöllunarefni sagnanna. Meðal annarra höfundarnafna hennar eru Jean Plaidy og Philippa Carr. Verk hennar hafa unnið til verðlauna, verið þýdd á fjölda tungumála og hafa selst í yfir 50 milljón eintökum um allan heim.

I

Bölvunin


Þegar Sir Edward Travers dó skyndilega og með dularfullum hætti, vakti það umtal og vangaveltur, ekki aðeins nærri heimili hans heldur um allt land.

Í blöðunum voru stórar fyrirsagnir: FRÆGUR FORNLEIFA-FRÆÐINGUR DEYR. VAR SIR EDWARD TRAVERS FÓRNARLAMB BÖLVUNARINNAR?

Í héraðsblaðinu stóð:

Við dauða Sir Edwards Travers, sem fyrir skömmu fór héðan til að annast uppgröft meðal grafa faraóanna, kemur enn upp þessi spurning: Er einhver sannleikur í þeirri gömlu trú, að sá, sem rótar við hvíldarstöðum hinna dánu, baki sér óvináttu þeirra? Skyndilegur og óvæntur dauði Sir Edwards hefir bundið skjótan enda á leiðangurinn.

Sir Ralph Bodrean, óðalseigandinn, og nánasti vinur Sir Edwards, hafði veitt leiðangrinum fjárhagslegan stuðning. Fáum dögum eftir dauða Sir Edwards fékk Sir Ralph slag og það vakti enn nýjar umræður. Hann hafði þó áður fengið slag og enda þótt hann næði sér eftir síðara áfallið, eins og hið fyrra, hafði heilsu hans hrakað mjög. Eins og við var að búast, var óðara talið, að þetta hvort tveggja stafaði af bölvuninni.

Lík Sir Edwards var flutt heim og jarðsett í kirkjugarðinum okkar, og Tybalt, einkasonur Sir Edwards, sem sjálfur var glæsilegur maður og hafði þá þegar hlotið nokkra frægð í sömu grein og faðir hans, var vitanlega aðal syrgjandinn.

Jarðarförin var ein hin stórkostlegasta í litlu tólftu aldar kirkjunni okkar. Viðstaddir voru alls konar menntamenn og háskólaborgarar, auk vina fjölskyldunnar, og svo auðvitað blaðamenn.

Ég var þá lagskona lafði Bodrean, konu Sir Ralphs. Sú staða átti ekki vel við eðli mitt, en ég hafði neyðzt til að taka hana, vegna fjárhags míns.

Ég fylgdi lafði Bodrean til kirkjunnar og þar gat ég ekki haft augun Tybalt.

Ég hafði elskað hann, heimskulega, af því að það var vonlaust, frá því að ég hafði fyrst séð hann. En hvaða möguleika hafði lítilfjörleg lagsmær til að ná í slíkan mann? Mér virtist hann hafa til að bera alla karlmannlega eiginleika. Hann var alls ekki sérlega laglegur að venjulegu mati, en hann var virðulegur — mjög hár, grannur, hvorki ljós né dökkur. Yfir honum var lærdómssvipur, en nautnasvip brá fyrir um munninn. Nefið var stórt og ofurlítið hrokafullt, grá augun lágu djúpt og eins og hjúpur yfir þeim. Það var aldrei hægt að sjá, hvað hann hugsaði. Hann var viðutan og dularfullur. „Það mundi taka heila ævi að læra að skilja hann,“ hugsaði ég oft. En hvílík könnunarferð það myndi verða!

Strax eftir jarðarförina fór ég aftur heim á Keverall Court með lafði Bodrean. Hún sagðist vera örþreytt og var vissulega kvartsamari og erfiðari en venjulega. Ekki batnaði skap hennar, þegar hún frétti, að blaðamenn höfðu komið þangað til að forvitnast um heilsu Sir Ralphs.

— Þeir eru eins og hrægammar, sagði hún. — Þeir vonast eftir hinu versta, af því að tvöfaldur dauðdagi ætti svo vel við söguna um bölvunina.

Nokkrum dögum eftir jarðarförina tók ég hunda Lafði Bodrean út í þeirra daglegu gönguferð og af gamalli venju beindi ég för minni að Giza House, heimili Travers-fólksins. Ég stóð við smíðajárnshliðið, þar sem ég hafði svo oft staðið og horfði eftir heimreiðinni. Nú, þegar jarðarförin var afstaðin og aftur hafði verið dregið frá gluggum hússins, var það ekki lengur dapurlegt. Það hafði aftur náð þeim dularblæ, sem ég tengdi því ætíð, því að þetta hús hafði alltaf töfrað mig, jafnvel áður en Travers-fjölskyldan flutti þangað.

Mér til gremju kom Tybalt út og það var of seint fyrir mig að snúa burt, af því að hann hafði séð mig.

— Gott kvöld, Júdit, sagði hann.

Ég gerði mér í skyndi upp ástæðu fyrir veru minni þarna. — Lafði Bodrean hafði áhuga á að vita, hvernig ykkur vegnaði, sagði ég.

— Ó, ágætlega, sagði hann. — En þú verður að koma inn.

Hann brosti til mín og ég varð hlægilega hamingjusöm. Það var fáránlegt. Að hin hagsýna, skynsama og stolta Júdit Osmond skyldi bera svo sterkar tilfinningar til annarrar mannlegrar veru! Júdit Osmond ástfangin! Hvernig gat hafa farið svo fyrir mér og það svona vonlaust?

Hann fylgdi mér heim brautina milli vanhirtra runna og ýtti upp dyrahamrinum, sem Sir Edward hafði komið með erlendis frá. Hann var lipurlega smíðaður sem andlit … frekar illilegt. Ég hugsaði, hvort Sir Edward hefði sett hann upp til að fæla frá gesti.

Teppin í Giza House voru þykk, svo að ekkert fótatak heyrðist. Tybalt fór með mig inn í setustofuna, þar sem þung, miðnæturblá gluggatjöldin voru brydduð gylltu og gólfteppið var dimmblátt með flauelsáferð. Sir Edward hafði fundizt hávaði truflandi, hafði mér verið sagt. Í herberginu voru merki um starf hans. Ég vissi, að sumir hinna furðulega gripa voru afsteypur af markverðustu fundum hans. Þetta var kínverska herbergið, en stóra píanóið, sem yfirgnæfði hér, léði því nokkurn viktoríanskan blæ.

Tybalt benti mér að fá mér sæti og settist sjálfur.

— Við erum að undirbúa annan leiðangur þangað, sem pabbi dó, sagði hann.

— Ó! Ég hafði sagt, að ég tryði ekki sögninni um bölvunina, en hugsunin um að hann færi þangað, vakti mér áhyggjur. — Heldurðu, að — það sé skynsamlegt? spurði ég.

— Þú trúir þó ekki þessu rugli um dauða föður míns, Júdit?

— Auðvitað ekki.

— Hann var hraustur maður, það er satt. Og skyndilega féll hann. Ég held, að hann hafi verið að því kominn að gera mikla uppgötvun. Það var dálítið, sem hann sagði við mig, daginn áður en hann dó: ,Ég held, að ég geti fljótlega sannað öllum, að þessi leiðangur muni borga sig vel!‘ Hann vildi ekki segja meira. Ég vildi sannarlega óska, að hann hefði gert það.

— Það fór fram líkskoðun.

— Já, hér á Englandi, en þeir gátu ekki fundið neina orsök. Það var mjög dularfullt. Og nú fékk Sir Ralph slag.

— Heldurðu, að það sé samband þar á milli?

Hann hristi höfuðið. — Ég held, að hinum gamla vini föður míns hafi orðið mikið um dauða hans. Sir Ralph hefir alltaf haft háan blóðþrýsting og hefir áður fengið snert af slagi. Ég veit, að læknarnir hafa árum saman ráðlagt honum að fara gætilega. Nei, veikindi Sir Ralphs eru ekki í neinum tengslum við það, sem gerðist í Egyptalandi. Jæja, ég ætla að fara þangað og komast að því, hvað það var, sem faðir minn var að því kominn að uppgötva og … hvort það snerti dauða hans á einhvern hátt.

— Farðu gætilega, sagði ég, áður en ég...