Ég var ung , þegar ég gerði mér ljóst að eitthvað var dularfullt við mig og sú tilfinning settist að mér, að ég tilheyrði ekki. Ég var frábrugðin öllum öðrum í Dower House.
Það varð að vana hjá mér að fara niður að ánni, sem rann á milli Dower House og Oakland Hall og stara í tært vatnið, eins og ég vonaðist til að finna svarið þar. Það hafði einhverja þýðingu, að ég valdi þennan sérstaka stað. Maddy, þjónustustúlka og nokkurs konar fóstra mín, fann mig þar einu sinni og ég mun aldrei gleyma skelfingunni í augum hennar.
— Hvers vegna ferðu hingað, ungfrú Jessica? spurði hún. — Ungfrú Miriam myndi banna það, ef hún vissi það.
Enn eitthvað dularfullt. Hvað var athugavert við fallega lækinn og snotru brúna yfir hann? Það hafði sérstakt aðdráttarafl fyrir mig, af því að hinum megin gnæfðu stórkostlegir, gráir veggir Oakland Hall.
— Mér þykir gaman hérna, sagði ég þrjózkulega. Og þar eð engum þóttu forboðnir ávextir sætari en mér og þar eð ég vissi, að ég átti ekki að fara þangað, sótti ég því ákafar þangað.
— Það er ekki rétt hjá þér að fara þangað, sagði Maddy.
Ég vildi vita hvers vegna. Það er einkennandi fyrir mig og þess vegna kallaði Maddy mig: ungfrú Hvað, Hver, Hvers vegna.
— Það er óhugnanlegt, sagði hún. — Ég hefi heyrt herra Xavier og ungfrú Miriam segja það.
— Hvers vegna?
— Byrjarðu enn, sagði Maddy. — Þaðer. Það er bara og þess vegna skaltu hætta að fara þangað.
— Er draugagangur þar? spurði ég.
— Það gæti vel verið.
Eftir það fór ég því oft og sat á bakkanum og hugsaði um lækinn renna gegnum myllurnar og liðast um landið, stækkandi, unz hann rennur í Thames og svo áfram til sjávar.
Hvaða hætta gæti verið á ferðum? hugsaði ég. Hann var grunnur, nema í flóðum. Hann var tær og ég sá steinana á brúnleitum botninum. Á hinum bakkanum stóð grátvíðir. Grét hann yfir einhverju? hugsaði ég. Eitthvað óhugnanlegt?
Ég kom því þangað og lét mig dreyma um sjálfa mig og alltaf hugsaði ég: Ég heyri ekki til í Dower House.
Ekki svo að skilja, að það truflaði mig. Ég var frábrugðin og vildi vera það. Til dæmis var nafn mitt frábrugðið. Það var raunverulgea Ópal — Ópal Jessica — og ég furðaði mig oft á því, hvernig móður minni hefði dottið í hug að skíra mig svo léttúðugu nafni, því að hún var síður en svo léttúðug kona. Og veslings dapri pabbi, hann hefði ekki ráðið miklu í því efni. Yfir honum hékk ský, eins og mér fannst stundum hanga yfir mér.
Ég var aldrei kölluð Ópal og því notaði ég það, þegar ég talaði við sjálfa mig. En hvers vegna hafði mér verið gefið það, ef enginn notaði það? Mamma virtist mjög gömul. Hún hlýtur að hafa verið á fimmtugsaldri, þegar ég fæddist. Miriam systir mín var fimmtán árum eldri en ég og Xavier bróður minn næstum tuttugu árum eldri. Mér fannst þau aldrei eins og systkini mín. Miriam var kennslukona mín, því að við vorum of fátæk til að ráða aðra. Raunar var fátæktin aðalþema heimilisins. Óteljandi sinnum hafði ég heyrt, hvernig það hafði verið áður en við hefðum hrapað úr mestu ofgnótt niður í ‚sárustu fátækt‘ eins og mamma sagði.
Veslings pabbi fór hjá sér, þegar hún talaði um ‚Betri daga‘ — þegar þau höfðu verið umkringd þjónaliði og höfðu verið dansleikir og stórveizlur. En við höfðum alltaf nóg að borða og Poor Jarman annaðist garðinn okkar og svo var frú Cobb, sem sá um matinn og Maddy sem allsherjar þjónustustúlka, svo að við vorum ekki alveg auralaus. En mamma ýkti alltaf fátæktina, svo að mig grunaði, að hún ýkti líka fyrri auðævi.
Ég var um tíu ára, þegar ég gerði mikla uppgötvun. Það var samkvæmi á Oakland Hall og svæðið hinum megin við lækinn ómaði af klið margra radda. Úr glugganum mínum sá ég fólkið ríða út með hundunum.
Ég óskaði, að það byði mér í heimsókn, því að mig langaði til að sjá stóra húsið að innan.
Ég var í kennslustofunni með Miriam, sem ekki var sérlega uppörvandi kennari. Hún var há og fölleit, tuttugu og fimm ára. Hún var óánægð — það voru þau öll, af því að þau gátu ekki gleymt betri dögum — og stundum leit hún á mig með kuldalegri andúð. Ég gat aldrei hugsað um hana sem systur.
Þennan dag kom veiðiflokkur — reiðmenn frá Oakland Hall — framhjá, og ég hljóp út að glugganum.
— Jessica, hrópaði Miriam. — Hvað ertu að gera?
— Mig langaði bara til að sjá reiðmennina, svaraði ég.
Hún þreif í handlegg mér, ekkert blíðlega, og dró mig frá glugganum. — Þeir gætu séð þig, hvæsti hún, eins og það væri hin mesta niðurlæging.
— Hvað um það? sagði ég. — Þeir sáu mig í gær. Ég veifaði og sagði halló.
— Vogaðu þér ekki að tala við þá aftur, sagði hún hörkulega.
— Hvers vegna ekki?
— Af því að mamma yrði reið.
— Þú talar eins og þeir væru villimenn. Ég sé ekkert athugavert við að heilsa þeim.
— Þú skilur ekki, Jessica.
— Hvernig get ég það, þegar enginn segir mér neitt?
Hún hikaði og svo var eins og hún hugsaði, að smá uppljóstrun væri leyfileg, ef það gæti forðað mér frá þeirri dauðasynd að vera vingjarnleg við gesti frá Oakland Hall, sagði hún: — Einu sinni áttum við Oakland Hall. Því er aldrei hægt að gleyma.
— Hvers vegna eigum við það ekki núna?
— Af því aðþeir tóku það frá okkur.
— Tóku það frá okkur? Hvernig? Ég sá fyrir mér umsát, þar sem þau vörðu kastalann undir styrkri stjórn mömmu.
— Þeirkeyptu Oakland Hall.
— Hvers vegna seldum við þeim?
Munnsvipurinn harðnaði. — Af því að við höfðum ekki lengur efni á að búa þar.
— Ó, sagði ég. —Fátœkt. Það var þá þar, sem við áttum Betri daga.
— Þú áttir þá ekki. Það var áður en þú fæddist.Ég lifði bernsku mína þar. Ég veit, hvað það þýðir, að hafa hrapað.
— Það þekki ég auðvitað ekki. En hvers vegna urðum við...