Enska sviðið
DENTON SQUARE
Þegar ég lít til baka yfir þá atburðarás, sem leiddi mig í þetta hús dularfullra leyndardóma, alvarlegra undirstrauma og truflandi bergmáls og gruns um yfirvofandi ógn, verður mér ósjálfrátt að dást að hugkvæmni æsku og reynsluleysis og hvernig ég, þegar ég var í hinu húsinu þægilega nálægt leikhúsinu, lét mér aldrei til hugar koma að efast um þær óhefðbundnu lífsvenjur, sem ég hafði fæðzt til.
Ég minnist þess að bíða í rökkrinu, sitjandi við gluggann, eftir því að kveikt væri á götuljósunum og að vakna á morgana við hljóð götunnar — brokkandi hesta, skyndihlátra þjónustustúlku að gamna sér við mjólkursendilinn, þvott á dyratröppum og fægingu kopars, sem varð að gerast hljóðlega og lítt áberandi, svo að fyrirfólkið gæti ímyndað sér — ef það hugsaði nokkurn tíma um það — að allt, sem nauðsynlegt væri því til þæginda, yrði til fyrir töfra.
Vegna móður minnar var áríðandi að við værum sérlega hljóðlát á morgnana. Hún fór sjaldan á fætur fyrir hádegi — auðvitað vegna þess, að hún fór sjaldan í rúmið fyrr en undir morgun. Hvíld hennar var mikilvæg, því að hún var miðdepill heimilisins. Tilvera okkar byggðist á henni og skaplyndi hennar réði andrúmsloftinu. Þegar hún var kát, vorum við kát, væri hún döpur, vorum við gætin og læddumst um á tánum og töluðum í hvíslingum. Eða eins og ég sagði við Meg Marlow: eins og fólk sem byggi á barmi eldfjalls, sem gæti gosið á hverri stundu.
Móðir mín var Irena Rushton eða það var leikhúsnafn hennar. Raunar hér hún Irena Ashington, gift Ralph Ashington, sem hún hafði yfirgefið, þegar ég var tveggja ára.
Meg, sem var aðstoðarstúlka hennar og raunar allt í öllu, vakti með mér hrifningu, þegar hún lýsti því, hvernig mamma hefði gengið burt. „Hún þoldi það ekki lengur. Það furðulega var, að hún tók þig með. Það var merkilegt. Ungabarn gat ekki verið til bóta fyrir starfsferil hennar. En samt tók hún þig með sér.“
Ég hugsaði hvar ég væri, ef hún hefði ekki tekið mig með sér.
„Á einhverjum hræðilegum, útlendum stað,“ sagði Meg. „Heitum — ekkert líkum Englandi. Og alls konar skorkvikindi. Köngulær.“
Meg hryllti alveg sérstaklega við köngulóm.
Meg gat ekki sagt mér mikið frá hjónabandi mömmu, því að hún hafði ekki verið hjá henni þá. En þegar hún sneri aftur heim til Englands, réðist Meg til hennar á ný. Það var eftir þrjú ár.
„Hún hefði aldrei átt að fara. Hjónaband . . . já, en ekki þess konar hjónaband. Ég bjóst við að hún myndi giftast einhverjum með sveitasetur og fallegt hús í borginni. En þá fellur hún fyrir þessum Ralph Ashington. Góð ætt, auðvitað. Stórt setur í sveitinni, en ekkert hús í borginni. Bara þetta í útlandinu, hvað sem það er. Hún talar ekki mikið um það og það segir sitt . . . Ralph Ashington, sem plantar tei eða einhverju hinum megin á hnettinum.“
„Hann er faðir minn.“
„Ó, já, hann er það.“ Hún horfði á mig með óbeit. „Hann var ekki einu sinni ungur. Ekkjumaður. Hvernig gat hún það?“
„Sástu hann, Meg? Sástu föður minn?“
„Tvisvar. Við leikaradyrnar og í búningsherberginu. Hann var einn í hópnum. Ekki hefði ég veðjað á hann. En hún valdi hann fljótt . . .“
Fjórði heimilismaðurinn var Janet — systir Meg. Hún var eingöngu hjá okkur vegna Meg. Annars hefði hún rokið í burtu.
Svo var auðvitað Everard frændi, en hann bjó eiginlega ekki hjá okkur. Hann gisti stöku sinnum. Mamma og hann elskuðu hvort annað innilega.
„Þau ættu að giftast,“ sagði Meg. „Það færi vel á því.“ En það var bara sá galli á, að mamma var enn gift pabba og Everard átti konu.
Mamma vildi ekki að ég færi í skóla. Þá hefði hún ekki haft litlu Söru Siddons, sem biði eftir henni heima. Hún varð því að láta kenna mér heima, svo að þar kom raunar enn einn heimilismaður, Toby Mander, nýútskrifaður frá Oxford. Hann hefði verið leikari, ef hann hefði haft nokkra hæfileika. Hann var aðdáandi og tryggur þræll mömmu. Hann kenndi mér á hverjum morgni. Ég var góður nemandi og við Toby reyndum að koma móður minni á óvart. Við hefðum þó átt að vita, að henni hefði ekki þótt mikið til þess koma, hversu há próf ég hefði tekið. Mér varð það smám saman ljóst, að hún vildi aðeins skapa mig í sitt mót.
En ég var svo ólík henni, að ég gat ekki sætt mig við það . . . En hamingjusömustu stundir þessa tímabils voru þær, sem ég átti með Toby . . . Hann fór með mig í ökuferðir og hann sýndi mér lífið íkringum okkur . . . og einu sinni fór hann með mig á Café Royal þar sem margt af fína fólkinu safnaðist saman. Það var skemmtilegt . . . Þangað til mamma birtist með einhverjum herramanni.
Toby eldroðnaði og stamaði: „Ég hélt . . . að Sara hefði gaman af því.“
„Þetta er varla staður til að fara með . . . barn.“
Svo stikaði hún burt með manninum og fólk horfði á eftir henni og benti. „Þetta er Irena Rushton.“ „Sú rétta Irena Rushton?“ „Já, þú veizt. Hún leikur íThe Colleen Bawn. Dásamleg, að sagt er.“
Toby var aumur — og hræddur, en mamma bara hló að þessu, þegar hún kom heim.
— — —
Það kom að því aðThe Colleen Bawn var útgengið og sýningum hætt. Fólk sagði, að Irena Rushton hefði aldrei verið betri. Síðasta sýningin var mikill sigur og á eftir hafði verið kveðjuveizla. Þá var hvíld framundan.
Það var eins og venjulega að fyrstu dagarnir voru dásamlegir.
Morguninn eftir veizluna bað ég um að fá að færa henni kaffið í rúmið — á hádegi. Hún var sofandi og ég lét bakkann á borðið og horfði á hana. Hún var mjög falleg. Hárið brúnt með kastaníublæ, andlitið lítið og hjartalaga og augnhárin voru eins og blævængur á fölum vanganum.
Hún opnaði augun og hló við mér. — Hvað eru að gera, Siddons litla?
— Horfa á þig og dást að þér. Þú ert svo lagleg og svo . . . ung.
Hún var himinlifandi. Hún elskaði gullhamra og þreyttist aldrei á að hlusta á þá. Ég hafði hitt á rétta orðið, þegar ég sagði, að hún væri ung. Mig grunaði, að líf hennar væri stöðug barátta við árin.
Við töluðum um hlutverk hennar og velgengni. Hún sagðist eiga von á ýmsum hlutverkum til athugunar. En skyndilega virtist hún...