12. KAFLI
Korterfyrirníu næsta morgun bankaði ég á matta rúðuna á skrifstofu Roths aðstoðaryfirlögregluforingja. Roth er vel við mig –þú ert mér eins og dóttir, segir hann. Hann hefur ekki minnstu hugmynd um hvað hann getur verið yfirlætislegur. Mér er skapi næst að segja Roth að mér þyki vænt um hann,eins og afa.
Ég átti von á margmenni – að minnsta kosti jakkafatagengi frá innra eftirlitinu eða kannski Welting deildarstjóra sem hafði yfirumsjón með varðstjóradeildinni – en þegar hann vísaði mér inn sá ég aðeins einn gest í herberginu.
Þokkaleg týpa í vandaðri bómullarskyrtu og með röndótt bindi, stuttklipptur, með dökkt hár og sterklegar axlir. Hann var með myndarlegt og gáfulegt andlit sem virtist lifna við þegar ég gekk inn, en fyrir mér þýddi það aðeins eitt:
Silkihúfa. Einhver úr kynningardeild lögreglunnar eða frá ráðhúsinu.
Ég hafði það afdráttarlaust og óþægilega á tilfinningunni að þeir hefðu verið að tala um mig.
Á leiðinni á skrifstofuna hafði ég æft sannfærandi frávísun varðandi hugsanlegt brot á öryggisreglum gagnvart fréttamönnum – hvernig ég sjálf hefði komið seint á svæðið og að aðalatriðið væri glæpurinn sjálfur. En Roth kom mér á óvart. „Brúðkaupsklukknatrega kalla þeir þetta,“ sagði hann og fleygði morgunútgáfuChronicle til mín.
„Búin að sjá það,“ svaraði ég, fegin að athyglin beindist aftur að málinu.
Hann horfði á herra Ráðhús. „Við munum lesa um hvert einasta atriði í þessu máli í blöðunum. Báðir krakkarnir voru ríkir, úr fínum skólum og vinsæl. Svolítið eins og John Kennedy yngri og ljóshærða eiginkonan hans – harmleikur þeirra.“
„Hver þau voru skiptir mig engu máli,“ svaraði ég. „Heyrðu Sam, í sambandi við gærdaginn ...“
Hann stöðvaði mig með handarhreyfingu. „Gleymdu gærdeginum. Mercer lögreglustjóri er búinn að hafa samband við mig. Þetta mál á alla hans athygli óskipta.“
Hann gaut augunum til vel klæddu stjórnmálatýpunnar úti í horni. „Hann vill að við höfum gott taumhald á málinu. Það sem hefur gerst í öðrum áberandi málum má ekki endurtaka sig hér.“ Síðan sagði hann við mig: „Við ætlum að breyta reglunum í þessu máli.“
Skyndilega varð andrúmsloftið á skrifstofunni óþægilega þrungið af baktjaldamakki.
Þá steig herra Ráðhús fram. Ég tók eftir að í kringum augu hans voru reynsluhrukkur manns sem hafði fengið að reyna sitt af hverju. „Borgarstjóranum og Mercer lögreglustjóra fannst að við gætum farið með þetta mál sem deildasamvinnuverkefni. Það er að segja, ef þú treystir þér til að vinna með nýjum starfsfélaga,“ sagði hann.
„Nýjum?“ Ég gaut augunum á þá til skiptis og endaði loks á Roth.
„Þetta er nýi vaktfélaginn þinn,“ tilkynnti Roth.
Það er heldur betur valtað yfir mig, lýsti rödd innra með mér yfir. Þetta mundu þeir aldrei gera karlmanni.
„Chris Raleigh,“ sagði aðalnúmerið úr ráðhúsinu og rétti fram höndina.
Ég rétti ekki mína hönd á móti.
„Undanfarin ár,“ hélt Roth áfram, „hefur Raleigh deildarstjóri unnið sem tengiliður samfélagshjálparinnar við skrifstofur borgarstjóra. Hann er sérhæfður í að stjórna málum sem gætu reynst viðkvæm.“
„Stjórna?“
Raleigh ranghvolfdi augunum. Hann var að reyna að gera lítið úr eigin mikilvægi. „Halda fólki í skefjum ... draga úr skaðanum ... græða öll sár í samfélaginu eftir á.“
„Ó,“ svaraði ég um hæl, „þú ert þá markaðsfulltrúi.“
Hann brosti. Hver einasti partur af honum geislaði af þessu þjálfaða sjálfstrausti sem ég tengdi við þá manntegund sem situr umhverfis langborð í ráðhúsinu.
„Þar áður,“ hélt Roth áfram, „var Chris hverfisdeildarstjóri á norðursvæðinu.“
„Það er sendiráðssvæði,“ hnussaði í mér. Allir gerðu grín að hinu eðla norðursvæði sem náði frá Nob Hill til Pacific Heights. Þar þóttu það æsilegir glæpir þegar konur úr efri stéttum heyrðu hávaða fyrir utan einbýlishúsin sín og þegar ferðamenn sem voru seint á ferð voru læstir úti á gistiheimilunum.
„Við sáum líka um umferðargæsluna á Presidio-svæðinu,“ mótmælti Raleigh með öðru brosi.
Ég hunsaði hann. Ég sneri mér að Roth. „Hvað með Warren?“ Við höfðum unnið saman að hverju einasta máli síðastliðin tvö ár.
„Jacobi fær annað verkefni. Ég er með kjörið starf sem hentar honum og hans eilífa blaðri.“
Mér líkaði ekki að skilja við félaga minn, þrátt fyrir allar hans heimskulegu athugasemdir. En Jacobi var sjálfum sér verstur.
Mér til nokkurrar furðu spurði Raleigh: „Er þetta í lagi þín vegna, varðstjóri?“
Ég hafði í rauninni ekkert val. Ég kinkaði kolli: „Ef þú flækist ekki fyrir. Og þess utan, þá ertu með flottara bindi en Jacobi.“
„Pabbadagsgjöf.“ Hann ljómaði. Ég ætlaði ekki að trúa því hvernig vonbrigðin hrísluðust um mig. Jesús minn, Lindsay. Ég sá engan hring.Lindsay!
„Ég losa þig úr öllum öðrum verkefnum,“ tilkynnti Roth. „Engar misvísandi skyldur. Jacobi getur séð um úrvinnsluverkefnin, ef hann vill vinna áfram að málinu.“
„Og hver fer þá með stjórnina?“ spurði ég Kát. Ég var yfirmaður Jacobis. Ég var vön að stjórna sjálf þeim málum sem ég kom að.
Roth skellti upp úr. „Hann vinnur fyrir borgarstjórann. Hann er fyrrverandi deildarstjóri. Hver heldur þú að sjái um stjórnina?“
„Hvað segirðu um að þú stjórnir á vettvangi?“ lagði Raleigh til. „Það sem gert er við það sem við finnum er svo á minni könnu.“
Ég hikaði, virti hann vandlega fyrir mér. Guð, hann var svo tungulipur.
Roth horfði á mig. „Viltu að ég athugi hvort Jacobi hefur svipaðar efasemdir?“
Raleigh horfði í augun í mér. „Sjáðu til, ég skal láta þig vita þegar þetta gengur ekki lengur upp hjá okkur.“
Þetta var eins góður samningur og ég gat búist við að fá. Staða mín hafði breyst. En ég fékk þó að minnsta kosti að halda áfram með málið. „Og hvað á ég svo að kalla þig? Deildarstjóra?“
Með afslappaðri hreyfingu fleygði Raleigh brúnum sportjakka yfir öxlina og teygði sig...