„Það eru tvær leiðir til fyrir hefðarkonu, þegar hún stendur uppi févana,“ hafði Adelaide frænka mín sagt. „Önnur er sú að giftast, og hin er að finna sér stöðu, sem hæfir tign hennar.“
Þegar lestin bar mig nú um skógi vaxnar hæðir og framhjá grænum engjum, var ég að leita þessa síðara úrræðis. Að nokkru leyti, hugsa ég, af því að ég hafði aldrei haft tækifæri til að reyna það fyrra.
Ég hugsaði um sjálfa mig eins og ég hlaut að koma öðrum farþegum fyrir sjónir, ef þeir gerðu sér það ómak að líta til mín, sem ekki var líklegt: Ung kona, meðalhá, komin af æskuskeiði, tuttugu og fjögurra ára, klædd brúnum merino-kjól, með rjómalitan knipplingakraga og knipplingaborða á uppslögunum. (Því að rjómagult er svo miklu hagkvæmara en hvítt, sagði Adelaide frænka.) Svarta sláin mín var óhneppt í hálsinn, af því að það var heitt í vagninum, og brúni flauelshatturinn minn, bundinn með brúnum flauelsborðum undir hökuna, var af þeirri gerðinni, sem fer kvenlegum stúlkum svo vel, eins og Phillidu systur minni, en er, hugsaði ég döpur, dálítið óeðlilegur á höfði eins og mínu. Hár mitt var þykkt, með koparblæ, skipt í miðju, dregið niður með hliðum of langs andlitsins og vafið í fyrirferðarmikinn hnút, sem stóð afturundan hattinum. Augu mín voru stór, með einhverjum gulleitum blæbrigðum, og þau voru það fallegasta við mig. En þau voru of frökk — eða svo sagði Adelaide frænka; en það þýddi, að þau hefðu ekki lært neitt af þeim kvenlega þokka, sem fór konum svo vel. Nef mitt var of stutt, munnurinn of stór. Satt að segja virtist ekkert mátulegt og ég verð að sætta mig við svona ferðalög, þegar ég ferðast frá einum vinnustað til annars, eins og ég verð að gera, það sem eftir er ævinnar, þar eð ég verð að vinna fyrir mér; og ég mun aldrei geta reynt hitt úrræðið: að giftast.
Við vorum komin framhjá grænum engjunum í Somerset og vorum nú langt inni á heiðalöndunum og skógarhæðunum í Devon. Mér hafði verið sagt að taka sérstaklega eftir því meistaraverki í brúargerð, Mr. Brunels brúnni, sem spannar Tamar hjá Saltash, og þegar ég væri komin yfir hana, væri ég komin út úr Englandi og komin inn í hertogadæmið Cornwall.
Ég var farin að hlakka hlægilega mikið til að fara yfir þessa brú. Ég var ekkert sérlega hástemmd þá — ef til vill hefi ég breytzt síðar, en það er líka nóg til að gera hagsýnasta fólk ímyndunarsjúkt að dvelja í húsi eins og Mount Mellyn — svo að ég gat ekki skilið, hvers vegna ég ætti að vera svona spennt.
Það var hlægilegt, sagði ég við sjálfa mig. Mount Mellyn kann að vera stórkostlegt setur. Connan TreMellyn kann að vera jafn rómantískur og nafnið; en það mun ekki skipta þig neinu. Þú munt verða að halda þig neðan við stigana, eða ef til vill uppi á hanabjálkanum, og þú átt ekki að skipta þér af öðru en Alvean litlu.
En hve þetta fólk bar undarleg nöfn, hugsaði ég og starði út um gluggann. Sólin skein á heiðarnar, en gráir tindarnir í fjarska virtust undarlega ógnandi. Þeir voru eins og steinrunnið fólk.
Fjölskyldan, sem ég var að fara til, var kornvelsk, og þeir hafa sitt eigið tungumál. Ef til vill hljómaði mitt eigið nafn, Martha Leigh, undarlega í þeirra eyrum. Martha! Ég hrökk alltaf við, þegar ég heyrði það. Adelaide frænka kallaði mig það alltaf; en heima, meðan faðir minn lifði, höfðu hann og Phillida aldrei kallað mig það. Ég var alltaf Marty. Ég gat ekki að því gert, að mér fannst Marty hljóta að vera elskulegri persóna en Martha gæti nokkurn tíma orðið, og ég var döpur og dálítið hrædd, af því að mér fannst, að Tamar-áin myndi aðskilja mig fullkomlega frá Marty í langan tíma. Í nýju stöðunni minni myndi ég sjálfsagt verða Miss Leigh; ef til vill ungfrúin, eða enn lítilfjörlegra — Leigh.
Einn af hinum fjölmörgu vinum Adelaide frænku hafði heyrt um „vandræði Connan TreMellyn“. Hann þarfnaðist hæfrar persónu til að hjálpa sér. Hún varð að vera nógu þolinmóð til að annast um dóttur hans, nægilega menntuð til að kenna henni og nægilega tigin til þess að barnið þyrfti ekki að líða fyrir það að umgangast fólk, sem ekki var alveg af hennar stétt. Það var greinilegt, að Connan TreMellyn þurfti að fá fátæka tignarkonu. Adelaide frænka hafði ákveðið, að ég hæfði í þetta hlutverk.
Þegar faðir okkar, sem hafði verið sveitaprestur, dó, hafði Adelaide frænka steypt sér yfir okkur og farið með okkur til London. Það átti að verða kynningartími, sagði hún, fyrir hina tvítugu Mörthu og átján ára Phillidu. Phillida hafði gifzt í lok samkvæmistímans, en ég var enn ógift, þó að ég hefði búið í fjögur ár hjá Adelaide frænku. Svo að það kom sá dagur, að hún hafði bent mér á þessa tvo möguleika.
Ég leit út um gluggann. Við vorum að koma til Plymouth. Ferðafélagar mínir höfðu farið út og ég hallaði mér aftur í sætinu og horfði út á stöðvarpallinn.
Þegar lestarvörðurinn var að blása í flautu sína og við vorum að renna af stað, opnuðust dyrnar og maður kom inn. Hann leit á mig með afsökunarbrosi, eins og hann væri að gefa í skyn að hann vonaði, að ég léti mér á sama standa, þó að hann væri með mér í vagninum, en ég leit undan.
Þegar við vorum farin frá Plymouth og vorum að nálgast brúna, sagði hann: „Yður lízt vel á brúna okkar?“
Ég sneri mér við til að líta á hann.
Ég sá karlmann, innan við þrítugt, vel klæddan, en eins og hefðarmann úr sveit. Jakkinn var dökkblár, buxurnar gráar, og hatturinn var það, sem við í London kölluðum „pottur“ vegna þess hve hann líktist þeim hlut. Hatturinn lá á sætinu við hlið hans. Mér fannst hann dálítið gjálífslegur, með brún augu, sem blikuðu hæðnislega, eins og honum væri fullkunnugt um aðvaranir, sem ég hlaut að hafa fengið, um það, hve hættulegt það væri að gefa sig á tal við ókunnuga karlmenn.
„Já, vissulega,“ svaraði ég. „Mér finnst hún glæsilegt mannvirki.“
Hann brosti. Við vorum komin yfir brúna og inn í Cornwall.
— — —
Brúnu augun virtu mig fyrir sér og ég fann strax til þess, að útlit mitt var ekki sem glæsilegast. Ég hugsaði: hann hefir einungis áhuga á mér, af því að hér er enginn annar, sem getur vakið athygli hans. Ég minntist þess, að Phillida hafði einu sinni sagt, að ég hrinti fólki frá mér, með því að álíta, að ef það sýndi mér áhuga, væri það einungis af því, að enginn annar væri nærtækur. „Líttu á sjálfa þig sem varaskeifu, og þú...