: Victoria Holt
: Greifinn á Kirkjubæ
: SAGA Egmont
: 9788728037003
: Gotneskar ástarsögur
: 1
: CHF 6.20
:
: Erzählende Literatur
: Icelandic
: 173
: Wasserzeichen
: PC/MAC/eReader/Tablet
: ePUB
Catherine er nýflutt heim til Yorkshire eftir nám í Dijon þegar hún hittir ungan mann að nafni Gabriel Rockwell. Hann er sonur baróns og býr á herragarði í útjaðri Yorkshire. Fundurinn verður ást við fyrstu sýn og Catherine og Gabriel gifta sig. Þegar heim á herragarðinn er komið áttar Catherine sig á því að ekki eru allir jafn ástfangnir af henni og Gabriel og ekki er allt eins og það á að vera. Yfir býlinu ríkir kuldalegt andrúmsloft og það virðist búa yfir hræðilegum leyndarmálum.idden /title /head body center h1 403 Forbidden /h1 /center /body /html

Victoria Holt er eitt höfundarnafna Eleanor Alice Burford Hibbert. Hún fæddist í Bretlandi árið 1906 og lést 1993 og ritaði um 200 sögulegar skáldsögur um ævina undir hinum og þessum höfundarnöfnum, allt eftir umfjöllunarefni sagnanna. Meðal annarra höfundarnafna hennar eru Jean Plaidy og Philippa Carr. Verk hennar hafa unnið til verðlauna, verið þýdd á fjölda tungumála og hafa selst í yfir 50 milljón eintökum um allan heim.

1. KAFLI


Ég kynntist Gabriel og Frjádegi sama daginn, og það undarlega var, að ég missti þá báða sama daginn, svo að eftir það gat ég aldrei hugsað um annan, án þess að minnast hins. Sú staðreynd, að líf mitt varð hluti af þeirra lífi, gefur til kynna skaplyndi mitt, því að báðir vöktu í fyrstu hjá mér einhverja verndartilfinningu. Allt fram að þeirri stundu hafði líf mitt beinzt að því að vernda sjálfa mig og ég held, að ég hafi verið þakklát að hitta einhvern, sem þarfnaðist verndar. Ég hafði aldrei fyrr átt elskhuga. aldrei áður átt hund — og þegar þessir tveir birtust, var eðlilegt, að ég tæki þeim með fögnuði.

Ég man vel þann dag. Það var um vor og hressandi vindur blés yfir heiðina. Ég hafði riðið frá Glen House eftir hádegið og í þann tíma yfirgaf ég aldrei svo húsið, að mér fyndist ég ekki hafa sloppið úr prísund. Þessi tilfinning hafði sótt á mig alveg síðan ég kom heim úr skólanum í Dijon. Ef til vill hafði hún alltaf verið, en ung kona hefir næmari tilfinningar í því efni en barn.

Heimili mitt var drungalegt. Hvernig gat annað verið, þegar það var þrúgað af þeim, sem ekki var þar lengur? Fyrstu dagana eftir heimkomu mína ákvað ég, að ég skyldi aldrei lifa í fortíðinni. Hvað sem fyrir mig kæmi, skyldi ég aldrei líta um öxl. Snemma á ævinni — ég var þá nítján ára — hafði ég lært þýðingarmikla lexíu. Ég ákvað að lifa í nútíðinni — fortíðin gleymd og framtíðin ókomin og óráðin.

Þegar ég lít nú til baka, sé ég, að ég hefi verið auðveld bráð þeim örlögum, sem mín biðu.

Sex vikum áður en þetta gerðist hafði ég komið heim úr skólanum, sem ég hafði dvalið í í fjögur ár. Allan þann tíma hafði ég aldrei komið heim, því að ég átti heima í Yorkshire og það var langt og dýrt ferðalag yfir hálft Frakkland og England. Nám mitt var nógu dýrt. Á skóladögum mínum hafði ég séð heimili mitt í hillingum, svo að myndin í ímyndun minni var nokkuð frábrugðin veruleikanum. Þess vegna urðu það mér veruleg viðbrigði að koma heim.

Ég hafði ferðazt frá Dijon með vinkonu minni, Dilys Heston-Browne og móður hennar. Faðir minn hafði komið því svo fyrir, þar eð óhugsandi var, að ung stúlka ferðaðist svo langa leið fylgdarlaus. Frú Heston-Browne hafði komið mér heilu og höldnu á St. Pancras stöðina, komið mér þar í lestina og ég fór svo ein frá London til Harrogate, þar sem átti að taka á móti mér.

Ég hafði búizt við, að faðir minn væri þar. Ég hafði vonað, að frændi væri þar. Það var hlægilegt, því að ef Dick frændi hefði verið í Englandi, hefði hann sótt mig alla leið til Dijon.

Það var Jemmy Bell, hestasveinn föður míns, sem beið mín með léttivagninn. Hann virtist frábrugðinn þeim Jemmy, sem ég hafði þekkt, skorpnari, en þó unglegri. Þetta var fyrsta áfallið, að einn af þeim, sem ég þekkti svona vel, skyldi vera öðru vísi en ég minntist hans.

Jemmy blístraði, þegar hann sá, hve ferðakista mín var stór. Svo brosti hann. — Herra minn trúr, ungfrú Cathy. Það lítur út fyrir, að þér séuð bara orðin ung glæsikona.

Þetta var önnur áminning. Í Dijon hafði ég verið Catherine eða Mademoiselle Corder. Ungfrú Cathy virtist allt önnur persóna. Jemmy var líka greinilega dálítið hissa á að sjá tízkuklæðnað minn.

— Hvernig líður föður mínum? spurði ég. — Ég bjóst við, að hann kæmi.

Jemmy stakk fram neðri vörinni og hristi höfuðið. — Hann er slæmur af gikt og þolir ekki hristinginn. Og þar að auki . . .

— Þar að auki hvað? sagði ég hvasst.

— Ja . . ., Jemmy hikaði. — Hann er rétt að ná sér eftir eitt kastið . . .

Örlítinn ótta setti að mér, þegar ég minntist þessara kasta. — Vertu róleg, ungfrú Cathy, faðir þinn er með slæmt kast. Þetta hafði gerzt reglulega og þá höfðum við læðzt um og talað í hvíslingum. Faðir minn hvarf í fáeina daga og þegar hann birtist aftur, var hann fölari en venjulega, með dökka bauga undir augunum. Hann virtist ekki heyra, þegar hann var ávarpaður. Ég hafði óttazt hann þá.

— Er frændi minn heima? spurði ég fljótt.

Jemmy hristi höfuðið. — Það eru meira en sex mánuðir, síðan við sáum hann. Það gætu orðið átján í viðbót.

Ég kinkaði kolli. Dick frændi var skipstjóri og hann hafði skrifað mér, að hann væri hinum megin á hnettinum og myndi verða bundinn þar í nokkra mánuði enn.

Það þyngdi yfir mér. Ég hefði verið langtum hamingjusamari, ef hann hefði verið heima.

Við ókum eftir vegum, sem endurvötku minningar mínar. Tími draumanna var liðinn og veruleikinn blasti aftur við. Við ókum um mjóa stígana, þar sem laufið lagðist næstum yfir vagninn. Svo breyttist landslagið, varð eyðilegra, stórbrotnara. Þarna var litla þorpið okkar — það var eiginlega ekki annað. Glengreen — fáein hús umhverfis kirkjuna, veitingahúsið, grasvöllurinn og smábýlin. Við ókum framhjá kirkjunni, að hvíta hliðinu, eftir heimreiðinni — og þarna var Glen House, minna en ég minntist þess, með rimlatjöldin dregin fyrir, svo að rétt sá í knipplingatjöldin. Ég vissi, að það myndu líka vera þykk velour-tjöld við gluggana, til að útiloka sólarljósið.

Ef Dick frændi hefði verið heima, myndi hann hafa dregið frá gluggunum og Fanny myndi hafa kvartað um, að sólin upplitaði húsgögnin og faðir minn . . . hann myndi ekki einu sinni heyra kvörtun hennar.

Þegar ég steig út úr vagninum, kom Fanny, sem hafði heyrt okkur koma, út til að heilsa mér.

Hún var hnöttótt og feitlagin Yorkshire kona, sem hefði átt að vera hýrleg, en var það ekki. Ef til vill hafði hún orðið svona drungaleg af að vinna hjá okkur.

Hún horfði gagnrýnandi á mig og sagði ákveðin: — Þú hefir horazt, meðan þú hefir verið að heiman.

Ég brosti. Þetta var óvenjuleg kveðja frá þeim, sem ég hafði ekki séð í fjögur ár og hafði verið mér sú eina „móðir,“ sem ég minntist. Og þó var þetta einmitt það, sem ég bjóst við. Fanny hafði aldrei gælt við mig. Henni hefði þótt það óviðeigandi, að láta nokkra ástúð í ljósi. Það var einungis, þegar hún gat gagnrýnt eitthvað, að henni fannst viðeigandi að láta uppi tilfinningar sínar. Hún hafði séð um einföldustu þarfir mínar, að ég væri hæfilega fædd og klædd, en ekkert þar fram yfir. Ég var engan veginn blind fyrir góðum...