: Victoria Holt
: Hús hinna þúsund lampa
: SAGA Egmont
: 9788728037065
: Gotneskar ástarsögur
: 1
: CHF 6.20
:
: Erzählende Literatur
: Icelandic
: 216
: Wasserzeichen
: PC/MAC/eReader/Tablet
: ePUB
Jane Lindsay hefði aldrei getað ímyndað sér að hún yrði rík. Hvað þá að hún yrði ástfangin af manni sem hún gæti ekki treyst. Jane hafði verið hugfangin af húsi hinna þúsund lampa frá því hún heyrði fyrst af því. Þegar hún er loks komin í húsið, eftir óhamingjusamt ástarsamband og brúðkaup af skynsemisástæðum, er það allt öðruvísi en hún hafði ímyndað sér. Hún upplifir sig óvelkomna, eins og einhver vilji hana feiga. Jane reynir í örvæntingu að komast að því hvað er í gangi, en kemst að því að hún hefur ekki lengur stjórn á atburðarásinni. Atburðarás, þar sem hver hryllilegur atburðurinn gerist á fætur öðrum.-

Victoria Holt er eitt höfundarnafna Eleanor Alice Burford Hibbert. Hún fæddist í Bretlandi árið 1906 og lést 1993 og ritaði um 200 sögulegar skáldsögur um ævina undir hinum og þessum höfundarnöfnum, allt eftir umfjöllunarefni sagnanna. Meðal annarra höfundarnafna hennar eru Jean Plaidy og Philippa Carr. Verk hennar hafa unnið til verðlauna, verið þýdd á fjölda tungumála og hafa selst í yfir 50 milljón eintökum um allan heim.

Rolands Croft


I


Þegar ég heyrði fyrst sagt frá Húsi hinna þúsund lampa, varð ég strax forvitin að heyra meira um stað með slíku nafni. Það var eitthvað töfrandi, dularfullt við það. Hvers vegna var það kallað það? Gátu verið þúsund lampar í einu húsi? Hver hafði komið þeim fyrir? Og hvað táknuðu þeir? Nafnið höfðaði til hugarflugsins, eins og það væri úr Þúsund og einni nótt. Ekki grunaði mig þá að ég, Jane Lindsay, myndi síðar flækjast í þau dularmál, hættur og undirferli, sem höfðu aðsetur í húsinu með þessu seiðmagnaða nafni.

Ég flæktist raunar í það, löngu áður en ég sá húsið og ég var þá þegar búin að fá minn hlut af ævintýrum og vonbrigðum.

Ég var fimmtán ára, þegar móðir mín gerðist ráðskona hjá þeim undarlega manni, Sylvester Milner, sem átti eftir að hafa svo mikil áhrif á líf mitt. Án hans hefði ég aldrei heyrt um þetta hús. Ef faðir minn hefði lifað, hefði líf okkar mótazt á venjulegan hátt. Ég hefði orðið vel upp alin en fremur fátæk stúlka og hefði sennilega gifzt og lifað hamingjusömu, en ekki sérlega spennandi lífi.

En hjónaband foreldra minna var á sinn hátt óvenjulegt, enda þótt aðstæðurnar væru ekki óvenjulegar. Faðir minn var sonur óðalseiganda í norðurhéruðunum. Fjölskyldan var rík og hafði átt óðalssetrið, Lindsay Manor, í þrjár aldir. Venjan var, að elzti sonurinn tæki við óðalinu, sá næsti gengi í herinn og sá þriðji í þjónustu kirkjunnar. Pabbi átti að fara í herinn, en þegar hann neitaði því, féll hann í ónáð og við giftingu sína var honum alveg útskúfað.

Hann var áhugasamur fjallgöngumaður og þegar hann var við fjallgöngur í Peak-héraðinu, kynntist hann móður minni. Hún var dóttir veitingamanns, falleg og kát. Hann varð ástfanginn af henni og kvæntist henni þegar í stað, þrátt fyrir andstöðu fjölskyldu sinnar, sem hafði ætlað honum dóttur nágranna þeirra. Þau reiddust svo, að þau útskúfuðu honum og hann fékk aðeins tvö hundruð pund á ári í lífeyri.

Faðir minn var dásamlegur maður, aðlaðandi og hafði áhuga á alls konar listum og vissi eitthvað um hvað eina á þessu sviði. Það eina, sem hann var ekki sérlega laginn við, var að vinna fyrir fjölskyldunni, og þar eð hann hafði verið alinn upp við allsnægtir, gat hann í rauninni aldrei aðlagað sig öðrum kringumstæðum. Hann málaði „bara vel“, en eins og allir vita, þýðir það, að hann málaði ekki nógu vel. Stöku sinnum seldi hann mynd og á fjallaferðatímanum var hann leiðsögumaður. Fyrstu minningar mínar um hann eru að sjá hann leggja af stað með ferðamannahóp, með ísaxir og kaðla, með augun glampandi af áhuga, af því að þetta var það, sem hann langaði til umfram allt annað.

Hann var draumóra- og hugsjónamaður. Mamma var vön að segja:,Það er sannarlega blessun, Jane, að við tvær stöndum báðum fótum á jörðinni, og þó að hugur okkar sé oft í þessu Derbyshire mistri, þá er hann aldrei uppi í skýjunum.‘

En við elskuðum hann og hann elskaði okkur og sagði oft, að við værum hin fullkomna þrenning. Þar eð ég var einkabarn, ákváðu þau að veita mér hina beztu menntun. Pabba fannst sjálfsagt að ég færi í þann skóla, sem stúlkurnar í ætt hans höfðu sótt og mömmu fannst að dóttir föður míns ætti að fá það bezta, svo að frá tíu ára aldri var ég í Cluntons, stúlknaskóla landaðalsins. Ég var Lindsay frá Lindsay Manor og enda þótt ég hefði aldrei séð staðinn og væri útskúfuð þaðan, tilheyrði ég honum samt.

Fjárhagslega vorum við ótrygg, en örugg í ást okkar hvers á öðru og með árlegan lífeyri pabba og það, sem hann vann sér inn stöku sinnum, lifðum við ánægjulegu lífi allt til hins hörmulega janúardags. Ég var þá heima í jólafríi.

Veðrið var ömurlegt það ár. Aldrei hafði ég séð fjöllin í Devonshire jafn ógnandi. Himinninn var blýgrár og vindurinn ískaldur og fimm stundum eftir að pabbi og hópurinn, sem hann fylgdi, lagði af stað, skall stórhríðin á. Ég get aldrei séð snjó, án þess að minnast þeirra hræðilegu stunda. Ennþá hata ég þetta undarlega hvíta skin, sem gegnsmitar andrúmsloftið, hata þögul snjókornin, sem falla þétt og þykkt. Við vorum innilokaðar í draugalegum hvítum heimi og einhvers staðar uppi í fjallinu var faðir minn.

— Hann er reyndur fjallgöngumaður, sagði móðir mín. — Hann bjargar sér.

Hún kepptist við að baka brauð í eldhúsinu, í gríðarstórum ofni hjá eldstæðinu. Ég tengi alltaf ilminn af nýbökuðu brauði við skelfingu þessara hræðilegu biðstunda, þegar ég hlustaði á standklukkuna tifa mínútu eftir mínútu, beið … beið fréttanna.

Þegar stórhríðina lægði, lá snjórinn í sköflum á stígunum og í fjöllunum. Leitarmenn fóru af stað, en það leið vika, áður en þeir fundu þá.

Við vissum það þó áður. Ég man, að ég sat í eldhúsinu, hlýjasta stað hússins, ásamt móður minni, sem talaði um, hvernig þau höfðu hitzt og af hve miklum þrótti hann hafði staðið gegn fjölskyldu sinni og fórnað öllu fyrir hana. — Hann er maður, sem aldrei gefst upp, endurtók hún sí og æ. — Hann mun koma eftir andartak. Og hann mun hlæja að okkur fyrir að vera hræddar.

En þó að hann gæti staðið upp í hárinu á fjölskyldu sinni, þá réði hann ekki við náttúruöflin. Það var sorglegasti dagur ævi okkar, þegar þeir komu heim með lík hans. Við jörðuðum hann ásamt fjórum öðrum úr hópnum. Aðeins tveir komust af og gátu sagt frá þrautseigjunni og þjáningunni.

Ég fór aftur í skólann. Aðaláhugamál mömmu var að ég gæti lokið skólagöngu minni. Til þess að ráða fram úr fjárhagserfiðleikum, ákvað hún að leita sér að ráðskonustöðu.

Það var ekki fyrr en á næsta skólamissiri, að við urðum að horfast í augu við það vandamál, hvort við gætum greitt reikninga okkar, og það var á því missiri, sem ég heyrði fyrst nafnið Sylvester Milner. Mamma skrifaði:

,Elsku Jane.

Á morgun fer ég til New Forest. Ég fer til viðtals á stað, sem nefnist Rolands Croft. Herramaður að nafni Sylvester Milner þarfnast ráðskonu. Mér skilst, að það sé stórt hús, og enda þótt ekki hafi verið enn með öllu fallizt á skilyrði mín, er óskað eftir að ég komi til viðtals. Ég mun skrifa þér og segja þér frá niðurstöðunni. Ef...