: Victoria Holt
: Menfreya kastalinn
: SAGA Egmont
: 9788728037096
: Gotneskar ástarsögur
: 1
: CHF 6.20
:
: Erzählende Literatur
: Icelandic
: 192
: Wasserzeichen
: PC/MAC/eReader/Tablet
: ePUB
Harriet Delvaney missir föður sinn ung, en hefur stjúpmóður sína, Jenny, til að hugga sig við. Þegar Harriet giftir sig uppgötvar hún hins vegar að fjölskyldusagan er allt önnur og skuggalegri en hún hélt. Bevil er draumaeiginmaður, en þrátt fyrir það verður Harriet mjög afbrýðissöm. Er Jenny eins góð vinkona og hún lést vera? Og hvað varð um erfðaskrá föður hennar? Harriet fer smám saman að trúa gömlu þjóðsögunni um að þegar klukkan stoppar á Menfreya mun einhver brátt deyja.-

Victoria Holt er eitt höfundarnafna Eleanor Alice Burford Hibbert. Hún fæddist í Bretlandi árið 1906 og lést 1993 og ritaði um 200 sögulegar skáldsögur um ævina undir hinum og þessum höfundarnöfnum, allt eftir umfjöllunarefni sagnanna. Meðal annarra höfundarnafna hennar eru Jean Plaidy og Philippa Carr. Verk hennar hafa unnið til verðlauna, verið þýdd á fjölda tungumála og hafa selst í yfir 50 milljón eintökum um allan heim.

1.


Það varð að horfa á Menfreya að morgni, til að það nyti sín bezt. Þetta uppgötvaði ég í fyrsta skipti í dögun í húsinu á Einsk-is-manns-eyju, þegar skarlatsrauð skýin í austri vörpuðu rauðbleikri slikju á sjóinn, og sjórinn, sem lék við strendur eyjarinnar, var eins og krypplað, perlugrátt silki.

Morguninn virtist friðsælli, vegna skelfinganæturinnar, sem ég hafði upplifað, útsýnið dásamlegra vegna martraðarinnar. Þegar ég stóð við opinn gluggann, með sjóinn og meginlandið framundan og Menfreya uppi á klettunum, þá var ég jafn frá mér numin af fegurðinni og af þeirri staðreynd, að ég hafði lifað af nóttina.

Húsið var eins og kastali með turnum sínum, brjóstvörnum og varðturnum — mið fyrir sjómennina, sem myndu vita hvar þeir væru staddir, þegar þeir sæju þessa hrauka gamalla steina. Þeir gátu verið silfurgráir um hádegi, þegar sólin fann hvassa tinnumolana í lægðunum og það glampaði á þá eins og demanta: en aldrei var Menfreya jafn stórkostlegt og í rósaglóð sólaruppkomunnar.

Menfreya hafði verið aðsetur Menfrey-ættarinnar í aldaraðir. Með sjálfri mér hafði ég skýrt þá Töfra-Menfrey-ana, vegna þess að þannig fannst mér þeir vera frábrugðnir venjulegu fólki, sérkennilegir í útliti, sterkt, fjörmikið fólk. Ég hafði heyrt þá kallaða Villtu-Menfrey-ana, og samkvæmt umsögn Á‘Lee — kjallarameistarans í Chough Towers — voru þeir ekki aðeins villtir, heldur einnig illir. Hann gat sagt sögur af núverandi Sir Endelion. Menfrey-arnir báru nöfn, sem voru mér framandi, en ekki Cornwallbúunum, því að í þeirra huga vom þessi nöfn hluti af fornri sögu hertogadæmisins. Sir Endelion hafði numið lafði Menfrey á brott, þegar hún var ung stúlka, fimmtán ára, hafði farið með hana til Menfreya og haldið henni þar, unz mannorð hennar var gereyðilagt og fjölskylda hennar sárfegin að fallast á ráðahaginn. Ekki af ást, sagði A‘Lee. Láttu þér slíkt ekki koma til hugar, ungfrú Harriet. Það voru peningarnir, sem hann sóttist eftir. Hún var einhver ríkasti erfingi í landinu, að sagt er. Og Menfrey-arnir þörfnuðust peninga.

Þegar ég sá Sir Endelion ríða um Menfreystow hugsaði ég mér hann sem ungan mann, alveg eins og Bevil son hans, þar sem hann nam erfingjann á brott og reið með hana til Menfreya — Veslings, dauðskelfdu stúlkuna, varla meira en barn, og þó algerlega töfruð af hinum villta Sir Endelion.

Hár hans var strítt og minnti mig á ljónsmakka. Hann hafði enn auga fyrir kvenfólki, sagði A‘Lee. Það var galli við Menfrey-ættina. Margir þeirra höfðu lent í ófarnaði — menn og konur — vegna ástarævintýra sinna.

Lafði Menfrey, erfinginn, var mjög ólík öðrum af fjölskyldunni, hún var ljós og smágerð, blíðlynd kona, sem annaðist um fátæklingana í héraðinu. Hún hafði auðmjúklega tekið örlögum sínum, þegar hún lét auðævi sín í hendur eiginmanns síns. Og með þeim, sagði A‘Lee, fór hann fljótlega að skemmta sér annars staðar.

Hún olli vonbrigðum — að öðru leyti en auðævunum — því að Menfrey-arnir höfðu alltaf verið barnmargir, en hún átti einungis einn son, Bevil, og svo höfðu liðið fimm ár unz hún eignaðist Gwennan. Ekki svo að skilja, að hún hefði ekki reynt í millitíðinni. Veslings konan hafði misst fóstur næstum á hverju ári, og þannig hélt það áfram í allmörg ár eftir að Gwennan fæddist.

Um leið og ég sá Bevil, og heyrði, að hann væri lifandi eftirmynd föður síns, vissi ég hvers vegna lafði Menfrey hafði látið nema sig á brott. Bevil hafði sama litarhátt og faðir hans, og fallegustu augu, sem ég hafði nokkurn tíma séð. Þau höfðu sama rauðbrúna blæinn og hár hans. En það var ekki liturinn, sem vakti athygli mína. Ég býst við, að það hafi verið svipur þeirra. Þau horfðu á heiminn og allt, sem í honum var, með öryggi, glettni og áhugaleysi, eins og ekkert væri þess virði að hugsa verulega um það. Í mínum augum var Bevil sá, sem var mest hrífandi í þessari hrifandi fjölskyldu.

Gwennan, systur hans, þekkti ég bezt allra, því hún var á aldur við mig og við vorum vinkonur. Hún hafði til að bera þetta ákafa lífsfjör og mikillæti, sem virtist vera arfgengt. Við vorum vanar að liggja á sjávarklettunum innan um blómstóð og runna og tala — eða öllu heldur, hún talaði og ég hlustaði.

Í St. Neots kirkjunni er glergluggi, sagði hún einu sinni. Hann hefir verið þar í hundruð ára og á honum er mynd af St. Brychan og tuttugu og fjórum börnum hans. Þar eru St. Ive og Menfre og Endelient…. Menfre, það er greinilega við, og nafn pabba kemur frá Endelient. Og Gwennan var dóttir Brychans, svo að nú veiztu…

— Og hvað með Bevil?

— Bevil. Hún var nafn hans fram af mikilli virðingu. — Hann heitir eftir Sir Bevil Granville, sem var mestur hermaður í Cornwall. Hann barðist gegn Oliver Cromwell.

— Jæja, sagði ég, því að ég kunni meira í sögu en hún. — Hann vann ekki.

— Auðvitað vann hann, svaraði hún fyrirlitlega.

— En ungfrú James segir, að Konungurinn hafi misst höfuðið og Cromwell ráðið ríkjum.

Hún var ekta Menfrey; hún bandaði hátíðlega frá sér ungfrú James og sögubókunum. — Bevil vann alltaf, fullyrti hún og þar með var það ákveðið.

Nú voru veggir hússins aftur að skipta um lit. Rósrauði blærinn var að hverfa, og þeir voru silfurgráir í björtu skini dögunarinnar. Ég starði á útlínur strandarinnar, á illilega klettana, hárbeitta og svikula, vegna þess að sjórinn huldi þá oft. Fast við eyna var röð kletta, sem kallaðir voru Leynar. Gwennan sagði, að það væri af því, að þeir væru stundum alveg huldir sýnum og lægju í leyni til að eyðileggja öll skip, sem kæmu nálægt þeim. Einskis-manns-eyja, sem var hluti af þessari klettaröð, var um hálfa mílu frá landi og eiginlega bara kúfur í sjónum, aðeins hálf míla umhverfis, en þó aðeins væri þar eitt hús, var þar uppspretta af fersku vatni, og það, sagði Gwennan, var aftur ástæðan fyrir því, að húsið hafði verið byggt þar. Það var eitthvað dularfullt við húsið og að enginn skyldi vilja búa þar — og ég taldi mér trú um, að það væri heppilegt, því að, hvar hefði ég átt að vera í nótt, ef einhver hefði búið hér?

Þetta var ekki staður, sem ég hefði valið, ef um eitthvað hefði verið að velja. Nú var húsið að fyllast af notalegri birtu, en samt var það drungalegt, eins og eitthvað af fortíðinni hefði verið hneppt þar í fjötra og vildi fjötra mig líka.

Gwennan myndi hlæja að mér, ef ég segði henni þetta. En hún hikaði ekkert við að ræða opinskátt um hluti, sem aðrir kusu heldur að láta sem ekki...