: Victoria Holt
: Nótt sjöunda mánans
: SAGA Egmont
: 9788728037034
: 1
: CHF 6.20
:
: Erzählende Literatur
: Icelandic
: 223
: Wasserzeichen
: PC/MAC/eReader/Tablet
: ePUB
Hin nítján ára Helena er í lautarferð með bekkjarfélögum sínum í Svartaskógi þegar hún týnist. Sex dögum síðar finnst hún aftur, en man ekkert hvað gerðist. Eða gerir hún það? Helena telur sig muna eftir að vera bjargað af hinum heillandi Maximilian, en er sagt að það geti ekki verið annað en ofsjónir og draumar. Mörgum árum seinna snýr hún aftur í skóginn, staðráðin í að leysa ráðgátuna um týndu dagana og hinn dýrlega Maximilian. Hún áttar sig þó fljótt á að hún er lent mitt í dularfullum aðstæðum sem enda með skelfingu.

Victoria Holt er eitt höfundarnafna Eleanor Alice Burford Hibbert. Hún fæddist í Bretlandi árið 1906 og lést 1993 og ritaði um 200 sögulegar skáldsögur um ævina undir hinum og þessum höfundarnöfnum, allt eftir umfjöllunarefni sagnanna. Meðal annarra höfundarnafna hennar eru Jean Plaidy og Philippa Carr. Verk hennar hafa unnið til verðlauna, verið þýdd á fjölda tungumála og hafa selst í yfir 50 milljón eintökum um allan heim.

1. KAFLI


Nú, þegar ég er orðin 27 ára, lít ég til baka á ótrúleg ævintýri æsku minnar og get næstum sannfært mig um, að það hafi ekki gerzt, eins og ég hélt þá. Samt vakna ég stundum við það, að í draumi hefi ég heyrt rödd kalla á mig — og það er rödd barnsins míns. En hér er ég, piparmey þessa prestakalls — að minnsta kosti hugsa þeir, sem þekkja mig, þannig um mig — þó að með sjálfri mér trúi ég því, að ég sé eiginkona, og ég spyr: Fékk ég einhverja heilatruflun? Var það rétt — eins og þau reyndu að sannfæra mig um — að ég, rómantísk og kærulaus stúlka, hefði verið svikin, eins og svo margar aðrar og hefði skáldað furðulega sögu, sem enginn trúði, nema ég sjálf, af því að ég gat ekki horfzt í augu við staðreyndirnar?

Þar eð það er mér mjög mikilvægt að skilja, hvað raunverulega gerðist á nótt sjöunda mánans, hefi ég ákveðið að skrifa það nákvæmlega eins og ég man það, í þeirri von, að sannleikurinn komi í ljós.

Schwester Maria, elskulegasta nunnan, var vön að hrista höfuðið. ‚Helena, barnið mitt‘, sagði hún, ‚þú verður að vera mjög gætin. Það er ekki gott að vera jafn kærulaus og ástríðufull og þú ert.‘

Schwester Gudrun, ekki jafn blíð, kipraði augun og kinkaði kolli, meðan hún horfði á mig. ‚Einhvern tíma munt þú ganga of langt, Helena Trant,‘ sagði hún.

Ég var send íDamenstift, klausturskóla, til menntunar, þegar ég var 14 ára og var búin að vera þar í fjögur ár. Á þeim tíma hafði ég aðeins farið einu sinni heim til Englands, þegar móðir mín dó. Frænkur mínar tvær komu til að annast pabba og ég hafði andúð á þeim frá byrjun, því að þær voru svo ólíkar mömmu. Karólína var ógeðfelldari. Það eina, sem hún virtist hafa ánægju af, var að benda á galla annarra.

Við bjuggum í Oxford, í skugga háskólans, sem pabbi hafði einu sinni verið nemandi í, unz kringumstæðurnar — vegna ógætilegrar hegðunar hans — höfðu neytt hann til að hætta. Ef til vill líktist ég honum. Ég var viss um það, því að ævintýri okkar voru ekki ósvipuð, enda þótt hans væru alltaf virðingarverð.

Hann var einkasonur og foreldrar hans höfðu ákveðið, að hann færi í háskóla. Fjölskyldan hafði fært fórnir — og það gat Karólína frænka aldrei fyrirgefið — því að á stúdentsárum sínum hafði hann farið gangandi í fríi sínu um Svartaskóg og þar hafði hann hitt og orðið ástfanginn af fallegri stúlku og eftir það gat hann ekki sætt sig við neitt, nema hjónaband. Það var eins og ævintýri. Hún var af háum stigum — landið var fullt af litlum greifadæmum og smáríkjum — og hjónabandið var litið hornauga af fjölskyldum beggja. Fjölskylda hennar vildi ekki, að hún giftist bláfátækum enskum stúdent, en fjölskylda hans hafði sparað saman til að veita honum menntun til að hljóta góða stöðu við háskólann. En fyrir þeim var ekkert til nema ástin, svo að þau giftust og faðir minn hætti við háskólann en litaðist um eftir starfi til að framfleyta fjölskyldunni.

Hann hafði kynnzt gamla Thomas Trebling, sem átti litla en líflega bókaverzlun, skammt frá High Street og þar fékk hann starf og íbúð uppi yfir verzluninni. Ungu hjónin stóðust allar illspár Karólínu frænku og hinnar Cassöndru-líku Matthildar frænku og voru dásamlega hamingjusöm. Fátæktin var þó ekki eini agnúinn; mamma var veikbyggð. Þegar faðir minn hitti hana, hafði hún einmitt dvalið í einum veiðikofa fjölskyldu sinnar í skóginum, í heilsubótarskyni. Hún var brjóstveik. ‚Engin börn,‘ tilkynnti Matthildur frænka, sem taldi sig sérfræðing í sjúkdómum. Og auðvitað kom ég þeim á óvart með því að gera vart við mig fljótlega eftir giftinguna og birtast nákvæmlega tíu mánuðum síðar.

Það hlýtur að hafa verið þreytandi, að þau skyldu afsanna allar hrakspár, en það gerðu þau og hamingja þeirra entist, unz mamma dó. Ég veit, að frænkurnar voru óánægðar með örlögin, sem virtust launa slíkt ábyrgðarleysi, í stað þess að refsa fyrir það. Gamli Thomas Trebling, sem varla gat sagt kurteislegt orð við nokkurn mann, varð bjargvættur þeirra. Hann dó og arfleiddi þau að verzluninni og litlu húsi, svo að þegar ég var sex ára, átti faðir minn sína eigin bókaverzlun, sem gaf sæmilegar tekjur. Hann lifði hamingjusömu lífi, með konu, sem hann elskaði og elskaði hann á móti, og dóttur, sem iðaði af lífsfjöri, sem erfitt var að bæla, og þau elskuðu á fjarrænan hátt, því að þau voru svo niðursokkin í ást hvors annars, að þau virtust ekkert hafa afgangs handa henni. Faðir minn var enginn kaupsýslumaður, en hann elskaði bækur, sérstaklega gamlar, svo að hann hafði áhuga fyrir starfinu. Hann átti marga vini í háskólanum, og í litlu borðstofunni voru oft menntandi og stundum glettnislegar viðræður við síðdegisverðinn.

Frænkurnar komu stundum. Mamma kallaði þær mjóhunda, af því að hún sagði, að þær snuðruðu um allt, til að vita, hvort húsið væri almennilega þrifið. Ég man, að þegar ég sá þær í fyrsta skipti, þá þriggja ára, grét ég og sagði, að þær væru alls ekki mjóhundar, heldur tvær gamlar konur. Karólína fyrirgaf mömmu aldrei og það var einkennandi fyrir hana, en hún fyrirgaf mér ekki heldur, sem var enn órökvísara.

Þannig leið bernska mín í þessari spennandi borg, sem var heimili mitt. Ég man eftir gönguferðum meðfram ánni með föður mínum, sem þá sagði mér sögu borgarinnar. Stundum fórum við öll þrjú út á engin, en ég vildi heldur vera með þeim hvoru um sig, því að þá hlaut ég þá athygli, sem ég náði aldrei, þegar við vorum þrjú saman. Pabbi sýndi mér borgina, þegar ég var með honum og sagði mér frá henni. En mamma — hún talaði um furuskóga og um hið litlaSchoss, sem hún hafði alizt upp í. Hún sagði mér frá jólunum, þegar þau fóru út í skóginn til að velja sér jólatré og hvernig dansararnir söfnuðust saman í riddarasalnum á aðfangadagskvöld og dönsuðu og sungu jólalög. Ég elskaði að heyra hana syngjaStille Nacht, Heilige Nacht, og gamla heimilið hennar virtist mér töfraheimur. Ég furðaði mig á því, að hún skyldi ekki hafa heimþrá og þegar ég spurði hana og sá brosið á andliti hennar, skildi ég, hve innilega hún elskaði föður minn. Ég held, að þá hafi ég sannfært sjálfa mig um, að sá dagur myndi koma, að einhver yrði mér jafn kær og faðir minn var henni. Ég hélt, að allir ættu að njóta þessarar skilyrðislausu, ósveigjanlegu aðdáunar. Ef til vill...