The Queens House
1.
Þegar Karlotta frænka mín dó skyndilega, álitu margir, að ég hefði myrt hana og að ef ekki hefði verið vegna framburðar Loman hjúkrunarkonu við réttarhöldin, hefði úrskurðurinn hljóðað: morð, framið af ókunnri persónu eða persónum. Þá hefði verið grafið í hina dimmu leyndardóma Queens House, og sannleikurinn hefði komið í ljós.
— Bróðurdóttirin hafði greinilega ástæðu, sagði fólk.
„Ástæðan“ voru eignir Karlottu fræknu, sem við dauða hennar urðu mín eign. En hve ólíkt allt var því, sem sýndist!
Chantel Loman, sem hafði gerzt vinkona mín þessa mánuði, sem hún bjó hjá okkur í Queens House, hló að slúðrinu.
— Fólk vill eitthvað sögulegt. Ef það er ekki, býr það slíkt til. Skyndilegur dauðdagi er eins og manna af himnum ofan. Auðvitað talar það. Láttu sem þú heyrir það ekki. Það geri ég.
Ég benti henni á, að hún þyrfti þess ekki eins og ég.
Hún hló. — Þú ert alltaf svo rökvís. Ég held, Anna, að ef þessir gömlu slúðurberar fengju óskir sínar uppfylltar og þú stæðir fyrir réttinum, myndirðu sigra dómarann og kviðdóminn og ákærandann. Þú getur séð um þig.
Bara að satt væri. En Chantel vissi ekki um svefnlausar nætur, þegar ég lá í rúminu og gerði áætlanir, reyndi að hugsa um, hvernig ég gæti losað mig við allt og byrjað nýtt líf á nýjum stað og losnað undan martröðinni. En að morgni var allt annað. Raunhæf verkefni sóttu að. Éggæti ekki farið; það var ekki mögulegt fjárhagslega. Slúðurberarnir vissu lítið um, hvernig ástandið raunverulega var. Ég ætlaði ekki heldur að vera hugleysingi og hlaupast á brott. Fyrst ég var saklaus, hverju skipti þá, hvað heimurinn hélt?
Heimskuleg þversögn, hugsaði ég, og ósönn. Hinir saklausu þjást oft, þegar þeir eru grunaðir og það er nauðsynlegt, ekki aðeins aðvera saklaus, heldur einnig að sanna það.
Ég gat ekki hlaupizt á brott, svo að ég setti upp það, sem Chantel kallaði grímu mína og horfði kæruleysislega á heiminn. Enginn skyldi fá að vita, hve alvarlega slúðrið snart mig.
Ég reyndi að líta hlutlaust á málin. Í rauninni hefði ég ekki getað þolað þessa mánuði, ef ég hefði ekki litið atburðina sem óþægilega ímyndun, leikrit á sviði, þar sem aðalleikendurnir væri fórnarlambið og sá grunaði — Karlotta frænka og ég sjálf — og í minni hlutverkum Chantel Loman, Elgin læknir, frú Morton, ráðskonan, Ellen, þjónustustúlkan og frú Buckle, sem kom til að gera hreint. Ég reyndi að sannfæra mig um, að það hefði í rauninni ekki gerzt, og að einhvern morguninn myndi ég vakna og sjá, að það væri aðeins martröð.
Ég var því ekki rökvís, heldur heimsk og jafnvel Chantel vissi ekki, hve auðsærð ég var. Ég þorði ekki að horfa til baka og þorði ekki að horfa fram. En þegar ég leit í spegil, sá ég breytingarnar á andliti mínu. Ég var tuttugu og sjö ára og sýndi það. Áður hafði ég virzt ung eftir aldri. Ég hugsaði mér mig þrjátíu og sjö … fjörutíu og sjö … búandi í Queens House, verða eldri og eldri, ásótt af vofu Karlottu frænku og slúðrið myndi halda áfram, aldrei gleymast að fullu, og við þá, sem enn væru ófæddir, myndi einhvern tíma verða sagt: — Þetta er gamla ungfrú Brett. Það var eitthvert hneyksli fyrir löngu. Ég veit ekki vel hvað. Ég held, að hún hafi myrt einhvern.
Slíkt mætti ekki verða. Stundum hét ég sjálfri mér því að sleppa, en gamli þráinn sótti á mig aftur. Ég var hermannsdóttir. Hve oft hafði faðir minn sagt: — Snúðu aldrei baki við erfiðleikunum. Horfztu í augu við þá.
Það var einmitt það, sem ég var að reyna, þegar Chantel kom aftur mér til bjargar.
En saga mín hefst fyrr.
Þegar ég fæddist, var faðir minn kapteinn í hernum í Indlandi. Hann var bróðir Karlottu frænku og hún var talsvert lík honum. Hann helgaði sig starfinu. Ekkert skipti máli, nema herinn. Mamma sagði oft, að hann myndi stjórna heimilinu eins og herbúðum, ef hún leyfði það. Þau höfðu mætzt á skipi á leið frá Indlandi. Mamma sagði mér frá því á sinn flögrandi hátt. Hún hélt sig aldrei fast að efnisþræðinum. Það varð að ýta við henni, ef hún átti ekki að láta hugann reika. — Karlotta frænka þín varð alveg óð. Hélt hún, að veslings maðurinn væri geldingur?
Þótt ég væri hjá þeim í æsku, var ég þó mest með indverskri fóstru, svo að minning mín um þau er fremur óglögg.
Átta ára gömul fór ég til Englands, til að fara í skóla. Þau fóru með mig og fólu mig umsjá Karlottu frænku. Við fórum í leiguvagni til Queens House eftir götum, sem voru ólíkar götunum í Bombay. Mamma masaði alla leiðina. — Sjáðu stóra skipið, elskan. Það er líklega eign fólksins þarna … hvað það nú heitir — þessa ríka og volduga fólks, sem á hálfa Langmouth og eiginlega hálft England. — Þú átt við Creditons, góða mín, sagði pabbi. — Þeir eiga mjög arðbært skipafyrirtæki, en þú ýkir, þegar þú segir, að þeir eigi hálfa Langmouth, þó að Langmouth eigi velgengni sína að talsverðu leyti þeim að þakka.
Creditons. Nafnið festist í minni mér.
Svo komum við að Queens House. Vagninn stöðvaðist hjá háum, rauðum múrsteinsvegg, með smíðajárnshliði. Þegar hliðið opnaðist og við gengum inn um það, fannst mér ég hafa stigið inn í aðra öld. Mér fannst ég komin þrjú hundruð ár aftur í aldir. Húsið var þriggja hæða, úr rauðum múrsteini. Útihurðin var járnslegin og þung járnbjalla til hliðar. Gluggarnir voru með grindum fyrir og mér fannst stafa einhver ógnun af húsinu. Það kann þó að hafa stafað af því, að ég vissi, að ég átti að verða eftir í umsjá Karlottu frænku, en foreldrar mínir myndu snúa aftur til fjörugs og margbreytilegs lífs. Það var sannleikurinn. Það var fyrirvaralaust.
Faðir minn reyndi að aðvara mig. – Þetta er talið mjög athyglisvert hús. Karlotta frænka þín er líka athyglisverð kona. Hún stundar þessi viðskipti … hún er mjög fær. Hún verzlar með dýrmæt gömul húsgögn. Hún mun segja þér það allt. Þess vegna á hún þetta gamla, athyglisverða hús. Hér geymir hún húsgögnin og fólk kemur hingað til að skoða. Auðvitað eru þetta ekki nein venjuleg viðskipti, svo að það er fyllilega viðeigandi fyrir hana að stunda þetta. Það er ekki eins og hún væri að selja smjör og sykur við...