: Victoria Holt
: Systurnar frá Greystone
: SAGA Egmont
: 9788728037072
: Gotneskar ástarsögur
: 1
: CHF 6.20
:
: Erzählende Literatur
: Icelandic
: 220
: Wasserzeichen
: PC/MAC/eReader/Tablet
: ePUB
Hin sautján ára Pippa uppgötvar nokkuð skelfilegt. Systir hennar, Francine, sem lést nokkrum árum áður, var í raun myrt. Hún fannst á veiðisetri í furstadæminu Bruxenstein ásamt baróninum manni sínum, en barn þeirra var hvergi að finna. Pippa ferðast til Bruxenstein til að komast að því hvernig - og hvers vegna - systir hennar var myrt og hvað varð um barn Francine. Tilraun hennar til að komast að sannleikanum um dauða systur sinnar færir hana mitt í valdabaráttu um furstadæmið og hún mætir pólitískum öflum sem veigra sér ekki við að myrða fyrir völd. Mitt í þessu hrífandi en hræðilega landi hittir Pippa þó einnig ástina og yfirþyrmandi ástríðu.-

Victoria Holt er eitt höfundarnafna Eleanor Alice Burford Hibbert. Hún fæddist í Bretlandi árið 1906 og lést 1993 og ritaði um 200 sögulegar skáldsögur um ævina undir hinum og þessum höfundarnöfnum, allt eftir umfjöllunarefni sagnanna. Meðal annarra höfundarnafna hennar eru Jean Plaidy og Philippa Carr. Verk hennar hafa unnið til verðlauna, verið þýdd á fjölda tungumála og hafa selst í yfir 50 milljón eintökum um allan heim.

Greystone Manor


Ég var sautján ára áður en ég komst að því, að systir mín hafði verið myrt. Þá voru næstum sjö ár frá því að ég hafði séð hana, en ég hafði hugsað um hana á hverjum degi, þráð fjörlega samveru hennar og syrgt brotthvarf hennar úr lífi mínu.

Áður en hún fór höfðum við Francine verið svo nánar sem tveir menn geta verið. Ég býst við að ég, sem var fimm árum yngri, hafi litið á hana sem verndara, og eftir dauða foreldra okkar, þegar við urðum að telja Greystone Manor heimili okkar, hafði ég mikla þörf fyrir það.

Það hafði gerzt sex árum áður, og þegar ég leit til baka til þeirra ára, fannst mér að við hefðum verið í Paradis. Fjarlægðin gerir fjöllin blá, var Francine vön að segja til að hugga mig og gaf þar með í skyn að eyjan Calypse hefði ekki verið fullkomin, svo að ef til vill var Greystone Manor ekki alveg jafn drungalegt og við, sem vorum nýkomnar þangað, álitum það vera. Enda þótt hún væri fínleg eins og Dresdenar-postulín í útliti hefi ég aldrei þekkt nokkurn, sem var hagsýnni. Hún var raunsæ, ráðagóð, ókúganleg og alltaf bjartsýn. Satt að segja virtist henni ómögulegt að sjá fram á ósigur. Ég hafði alltaf hugsað mér, að hvað sem Francine ákvæði að gera, myndi hún framkvæma og það myndi heppnast. Þess vegna varð mér svo mikið um, svo yfirþyrmd af vantrú, þegar ég fann blaðið í kistu Grace frænku uppi á háalofti á Greystone. Ég kraup niður með blaðið í höndunum og orðin dönsuðu fyrir augum mér.

Von Gruton Fuchs barón fannst myrtur í rúmi sinu í veiðikofa sínum í Bruxenstein-héraðinu í Grutoniu á miðvikudagsmorgun. Með honum var hjákona hans, ung ensk stúlka, sem enn er ekki vitað hver er, en álitið er, að hún hafi búið með honum í veiðikofanum í nokkrar vikur fyrir sorgaratburðinn.

Svo var önnur úrklippa:

Komið er í ljós hver unga konan var, sem myrt var ásamt Gruton Fuchs. Hún hét Francine Ewell, og hafði verið náin vinkona barónsins um nokkurn tíma.

Meira var það ekki. Það var ótrúlegt. Baróninn var eiginmaður hennar. Ég mundi svo vel að hún hafði sagt mér, að þau ætluðu að gifta sig og í hve harðri baráttu ég átti við sjálfa mig að fleygja frá mér ömurleikatilfinningunni og reyna að taka þátt í hamingju hennar.

Ég bara kraup þarna, unz ég fann að ég var orðin stirð og mig verkjaði í hnén. Þá tók ég blaðaúrklippurnar og fór með þær niður í svefnherbergi mitt og sat þar sem stirðnuð og hugsaði um fyrri tíma … um allt það, sem hún hafði verið mér, unz hún fór burtu.

Þessi dýrlegu ár höfðum við átt heima á eyjunni Calypse ásamt elskuðum, elskandi og mjög óraunsæjum foreldrum okkar.

Það voru dásamleg ár. Þeim hafði lokið, þegar ég var ellefu ára og Francine sextán, svo að ég býst við, að ég hafi ekki skilið mikið af því, sem var að gerast kringum mig. Mér var ókunnugt um fjárhagsvandann og áhyggjurnar af því, hvernig við ættum að lifa, þann tíma sem engir gestir komu til vinnustofu föður mins. Ekki svo að skilja, að slikt væri látið í ljósi, því að Francine var þar og stjórnaði okkur öllum af leikni og orku, sem við öll töldum vera sjálfsagða.

Faðir okkar var listamaður. Hann hjó út fegurstu myndir af Amor og Psycke, Venus að stiga upp úr bylgjunum, litlum hafmeyjum, dansmeyjum, krukkum og blómakörfum og gestir komu og keyptu það. Móðir mín var uppáhalds fyrirsæta hans og þar næst Francine. Ég sat lika fyrir hjá honum. Þeim hefði aldrei komið til hugar að skilja mig útundan, enda þótt ég væri ekki jafn tággrönn og Francine og móðir mín, en þær voru fullkomnar fyrirmyndir fyrir steinstytturnar. Þær voru hinar fallegu. Ég líktist föður mínum, hárið af ólýsanlegum lit — mætti kallast meðalbrúnt — þykkt, slétt og stöðugt ósnyrtilegt. Ég var með græn augu, sem skiptu um lit eftir umhverfinu og það sem Francine kallaði ‚frekju‘ nef og munnurinn var of stór. ‚Gjöfull‘, sagði Francine. Hún var góður huggari. Móðir mín hafði til að bera álfkonu fegurð, sem Francine hafði einnig hlotið. Ljóst, hrokkið hár, blá augu með dökkum augnhárum og þessa auka viðbót við nefið, sem nægði til að gera það fallegt. Við þetta bættist svo stutt efrivör, sem sýndi örlítinn hluta perluhvítra tanna. Umfram allt var yfir þeim hjálparvana kvenleiki, sem kom karlmönnum til að þrá að grípa þær og vernda gegn hörku heimsins. Móðir mín kynni að hafa haft þörf fyrir slika vernd. Francine alls ekki.

Það voru langir, heitir dagar — þegar við rerum á bátnum út á blátt lónið og syntum þar, vorum stöku sinnum í tímum hjá Antonio Farfalla, sem fékk greitt með myndastyttum úr vinnustofu föður míns. ‚Einhvem tíma verður það mikils virði‘, fullvissaði Francine hann. ‚Þú þarft aðeins að bíða, þar til faðir minn verður frægur‘. Francine gat verið mjög sannfærandi, þrátt fyrir það hve brothætt hún sýndist og Antonio trúði henni. Hann tignaði Francine. Þar til við komum að Greystone virtust allir dá Francine. Hún var elskulega verndandi gagnvart honum, og enda þótt hún gerði mikið að gamni sínu út af nafni hans, sem á ítölsku þýðir fiðrildi, en hann var stirðlegasti maður sem hægt var að hugsa sér, sýndi hún honum alltaf samúð, þegar hann var í vandræðum vegna klaufaskapar sins.

Það leið nokkur tími, áður en ég fór að hafa verulegar áhyggjur af stöðugum veikindum mömmu. Hún var vön að liggja í hengirúmi, sem við festum upp utan við vinnustofuna, og alltaf var einhver að ræða við hana. Faðir minn sagði, að í fyrstu hefðum við ekki hlotið hlýlegar viðtökur á eyjunni. Við vorum aðkomin en þau eyjafólk. Þau höfðu búið þar í aldir og ræktað vínvið og silkiorm og unnið í steinnámunni, en þaðan fékk faðir minn alabastur og serpentine til að vinna úr. En þegar eyjafólkið loks sá, að við vorum ekkert frábrugðin þeim, viðurkenndi það okkur …

Francine uppgötvaði allt, sem hún gat um fjölskyldu okkar. Hún vildi vita allt. Henni var illa við vanþekkingu. Hún vildi vita hvert smáatriði — hvers vegna afrakstur silkiormanna væri meiri eða minni, hve mikið brúðkaupsveizla Vittoria Guizza kostaði, og hver væri faðir að barni Elizabetta Caldori.

— Það er sagt, að þeir, sem allt vilji vita, kunni einhvern tíma að uppgötva eitthvað ónotalegt, sagði Antonio.

— Á Englandi er sagt „Forvitnin drap köttinn“, sagði Francine. — Jæja, ég er ekki köttur og ég ætla að vera forvitin … jafnvel þó að það drepi mig.

Við hlógum öll að því...