: Victoria Holt
: Tími veiðimánans
: SAGA Egmont
: 9788728037188
: Gotneskar ástarsögur
: 1
: CHF 6.20
:
: Erzählende Literatur
: Icelandic
: 223
: Wasserzeichen
: PC/MAC/eReader/Tablet
: ePUB
Í skógi einum í Sviss er sérkennilegur klettur. Sagan segir að ef hann er heimsóttur á tíma veiðimánans sjái maður framtíðarmaka sinn. Cordelia Grant er ensk stúlka í heimavistarskóla í Sviss sem ákveður að heimsækja klettinn með vinkonum sínum til að sjá hvort sagan sé sönn. Og þær verða ekki fyrir vonbrigðum. Í skóginum hitta þær dularfullan en myndarlegan mann sem sýnir Cordeliu alveg sérstaka athygli. Cordelia snýr aftur til Englands, en getur ekki hætt að hugsa um þennan ókunna, heillandi mann. Þegar hann birtist við dularfullar aðstæður á fjölskylduheimili hennar fer hún að halda að þjóðsagan um klettinn sé kannski sönn...-

Victoria Holt er eitt höfundarnafna Eleanor Alice Burford Hibbert. Hún fæddist í Bretlandi árið 1906 og lést 1993 og ritaði um 200 sögulegar skáldsögur um ævina undir hinum og þessum höfundarnöfnum, allt eftir umfjöllunarefni sagnanna. Meðal annarra höfundarnafna hennar eru Jean Plaidy og Philippa Carr. Verk hennar hafa unnið til verðlauna, verið þýdd á fjölda tungumála og hafa selst í yfir 50 milljón eintökum um allan heim.

SKÓGARÆVINTÝRI


Ég var nítján ára, þegar það, sem ég kallaði skógarævintýrið, gerðist. Það hafði virzt dularfullt, eins og það hefði gerzt í draumi. Oft hafði ég næstum sannfært sjálfa mig um, að það hefði aldrei gerzt nema í ímyndun minni. En ég hafði verið raunsæ og hagsýn frá fyrstu bernsku, ekki draumlynd um of. En þá var ég óreynd, hafði tæpast lokið skólagöngu minni og enn eiginlega á unglingsárum.

Það gerðist eitt síðdegi seint í október í skógi í Sviss, skammt frá landamærum Þýzkalands. Ég var á síðasta ári í dýrum kvennaskóla, sem Patty frænka hafði ákveðið að ég yrði að ganga í til að „fínpússa“ menntun mína.

— Tvö ár ættu að nægja, sagði hún. — Það skiptir ekki öllu máli, hvað þau gera fyrir þig, heldur hverju fólk trúir að þau hafi gert. Ef foreldrar vita, að ein af okkur hefir verið í fullnaðarnámi í Schaffenbrucken, munu þeir ákveða að senda dætur sínar til okkar.

Patty frænka stjórnaði stúlknaskóla og hugmyndin var, að ég kæmi þangað til kennslu, þegar ég hefði lokið námi. Þess vegna yrði ég að ná sem beztum árangri í náminu, svo að það yrði ómótstæðilegt foreldrum, sem vildu að dætur þeirra hlytu nokkurn ljóma af dýrð Schaffenbrucken.

— Alger sleikjuháttur, sagði Patty frænka. — En ættum við að kvarta, ef það hjálpar til að gera Skóla Patience Grants fyrir ungar stúlkur að ábatavænlegri stofnun?

Patty frænka var ekki ólík tunnu. — Mér þykir matur góður, sagði hún. — Hvers vegna þá ekki að njóta hans? …

Maturinn í skóla hennar var mjög góður — ólíkt því, sem ég býst við að hann hafi verið í mörgum öðrum svipuðum stofnunum.

Patty frænka var ógift. — Af þeirri einföldu ástæðu, að enginn hefir beðið mín, sagði hún. — Annað mál er það, hvort ég hefði tekið nokkrum … En það vandamál kom aldrei upp … Ég sat alltaf á dansleikjunum. Ég gat klifrað í trjám, áður en ég bætti svona á mig, en Guð hjálpi þeim strák, sem vogaði sér að toga í tíkarspenana mína, því að ég sigraði í öllum slagsmálum, mín kæra Cordelia.

Ég trúði því vel og hugsaði oft, hve karlmenn væru heimskir, að enginn skyldi hafa haft vit á að biðja hennar. Hún hefði orðið fyrirtaks eiginkona, og mér var hún framúrskarandi móðir.

Foreldrar mínir voru trúboðar í Afríku. Það var þeim heilagt hlutverk. En eins og margir heilagir menn voru þau svo bundin við að byggja upp hið góða í heiminum, að þau virtust ekki eiga til neina umhyggju handa litlu dóttur sinni. Ég man þau óljóst, því að ég var aðeins sjö ára, þegar ég var send heim til Englands.

Ég minnist óglöggt langrar ferðarinnar, en ég mun ætíð minnast þess, þegar ég sá hina þybbnu Patty föðursystur mína, sem beið mín þegar ég steig í land. Fyrst veitti ég athygli glæsilegu fyrirbæri með blárri fjöður. Patty frænka var veik fyrir höttum — næstum eins og fyrir mat. Þarna stóð hún — augun stækkuð af gleraugunum, andlitið eins og fullt tungl, geislandi af sápuþvotti og lífskrafti undir stórkostlegum hattinum, sem vaggaði ískyggilega, þegar hún vafði mig að feikilegum, lavenderilmandi barmi sínum.

— Jæja, hér ertu þá, sagði hún. — Dóttir Allans … komin heim.

Og þessi fyrstu andartök sannfærðu mig um að ég væri það.

Um tveimur árum síðar dóu foreldrar mínir með skömmu millibili.

Ég var hrædd um, að ég hafi ekki syrgt þau mikið. Ég var algerlega innlifuð í lífið í Grantley Manor, gömlu húsi í Elísabetar-stíl, sem Patty frænka hafði keypt fyrir það, sem hún kallaði föðurarf sinn.

Við áttum dásamlegar samræður. Hún virtist ekki draga dul á neitt. Síðar hugsaði ég, að flestir ættu einhver leyndarmál, en þannig virtist það ekki vera hjá henni., … Þegar ég var í skóla, skemmti ég mér vel, en fékk aldrei nóg að borða. Ég held, að skólinn hafi gert mig að sælkera, því að ég hét því, að þegar ég útskrifaðist, skyldi ég borða og borða. Ef ég eignaðist skóla, skyldi hann verða öðruvísi … Og þegar ég eignaðist peninga, ákvað ég að taka áhættuna. Ég keypti staðinn hér og kallaði hann Grantley Manor og ætlaði að gera Patience Grant skólann einhvern þann fínasta í landinu svipað og Schaffenbrucken er í Sviss …‘

Þetta var í fyrsta skipti að ég heyrði minnzt á Schaffenbrucken.

— Nemendurnir eru sérstaklega valdir, svo að ekki er auðvelt að komast þar að … Það er dýr staður, en ég held, að það sé þess virði. Þar er hægt að læra frönsku og ensku af þeim, sem hafa það að móðurmáli … Þar er hægt að læra að dansa og ganga á réttan hátt. Auðvitað er hægt að læra það í þúsundum skóla, en það mun verða litið á þig allt öðrum augum, ef þú hefir Schaffenbrucken-glansinn yfir þér … Þegar þú kemur þaðan, munum við láta það berast út, að þú hafir verið þar og mæðurnar munu berjast um að koma dætrum sínum hingað. Ungfrú Cordelia Grant stjórnar þar. Hún hefir verið í Schaffenbrucken.

— Einhvern tíma munt þú verða eigandi skólans, Cordelia, sagði hún.

Ég vissi, að hún átti við eftir dauða hennar og ég gat ekki hugsað mér heiminn án hennar. Hún var miðpunktur lífs míns með kringlótt andlitið, hlátursrokurnar, skemmtilegu samræðurnar, matarlystina og fáránlega hattana.

Þegar ég var sautján ára, sagði hún að tími væri kominn til að ég færi til Schaffenbrucken.

 

Skólahúsið var ekki sérlega merkilegt, en umhverfið var stórfenglegt. Skólastýran var Madame de Guérin, svissnesk-frönsk, miðaldra kona, sem bar með sér hæglátan aga. Hún hafði ekki mikil skipti af okkur stúlkunum. Kennslukonurnar litu eftir okkur. Við lærðum dans, leiklist, frönsku, þýzku og ‚samkvæmislist‘. Við áttum að vera hæfar til að taka þátt í fínu samkvæmislífi, þegar við útskrifuðumst.

Aginn var ekki svo strangur. Við vorum frá sextán ára til tvítugs. Við áttum ekki að hljóta grunnmenntun, heldur fágun — áttum að verðafemme comme il faut eins og Madame de Guérin sagði. Það var meira áríðandi að dansa vel og vera leiftrandi í viðræðu en að vita mikið um bókmenntir eða stærðfræði …

Enda þótt aginn væri ekki strangur í kennslunni, vorum við þó undir ströngu eftirliti, og ef einhver...